Myndbandið hér að neðan getur verið óþægilegt áhorfs fyrir einhverja og er því full ástæða til að vara viðkvæma við, en hér má sjá Shannon Locke, sem er 23 ára gömul og þjáist af alvarlegri flogaveiki, fá flogakast við hlið hjálparhundsins Poppy.
Tíkin Poppy, sem er 2 ára gömul og er þrautþjálfaður hjálparhundur, skynjar þegar eigandi hennar er á barmi flogakasts og varar Shannon við í tæka tíð. Segir Shannon engan vafa leika á því að hundurinn hafi þannig bjargað lífi hennar margsinnis og að án Poppy væri hún illa á vegi stödd.
Í þetta skiptið sýndi Poppy varúðarmerki með því að leggja loppurnar á líkama Shannon heilum fimmtán mínútum áður en hún fékk flog, sem gerði Sharon kleift að koma sér fyrir á öruggum stað og hagræða myndavél fyrir við rúmgaflinn sem filmaði allt sem fram fór, frá upphafi til enda.
Athygli er vakin á því að hundurinn er þjálfaður til að sleikja andlit eiganda síns meðan á floginu stendur og einnig meðan Shannon er að ranka við sér úr floginu en það er gert í tvennum tilgangi, 1 ) Til að hindra að munnfroða kæfi þann flogaveika meðan kastið stendur yfir og 2 ) til að hjálpa Shannon að ranka við sér aftur.
Sjálf segir Shannon á Facebook síðu sinni:
Ég velti því lengi fyrir mér hvort ég ætti að deila þessu myndbandi, því þetta er ótrúlega vandræðalegt … en svona er flogaveiki. Yndislegi hjálparhundurinn minn, sem heitir Poppy, varaði mig við heilum 15 mínútum áður, sem gaf mér smá svigrúm til að stilla myndavélinni upp. Poppy er ótrúleg og hún varar mig ekki bara við yfirvofandi flogi heldur hjálpar mér líka að ná fullri meðvitund og jafna mig strax eftir flogakastið. Ég vona að allir sem horfa á myndbandið sjái með eigin augum hversu ótrúleg hún er, fallega og loðna lífsbjörgin mín, sem ég myndi deyja án (í alvöru!!) Neil Powell er ótrúlega flínkur þjálfari og í sameiningu höfum við stofnað góðgerðarsamtök. Líkaðu endilega við síðuna okkar til þess að fylgjast með Poppy og öðrum hjálparhundum sem bjarga mannslífum!
Hér má sjá ótrúlegt myndbandið sem sýnir bæði flogaveiki í hnotskurn og svo hvernig hjálparhundur getur bjargað lífi eiganda síns með réttum viðbrögðum: