KVENNABLAÐIÐ

Handgert dökkt hrákakósúkkulaði með vanillubaunum – UPPSKRIFT

Ertu hrifin/n af dökku súkkulaði? Áttu erfitt með að standast þá freistingu að fá þér einn mola? Dregur þú jafnvel hollustu verksmiðjuframleiddra afurða í efa? Eða ertu ástríðufullur sælkeri í eðli þínu, sem nýtur þess til fullnustu að galdra fram ómótstæðilegar kræsingar í eldhúsinu?

Hvað ef þú hefðir yfir höndum uppskrift að lífrænu, dökku súkkulaði með færri en fimm innihaldsefnum sem að auki er heimagerð OG bráðholl? Því, já! Ákveðnar gerðir af súkkulaði eru bráðhollar og því dekkra sem súkkulaðið er, því heilnæmari eru molarnir!

 

Í þessa heimagerðu (og guðdómlegu uppskrift) fara einungis heilnæm hráefni á borð við kókosolíu, hrákakó og lífrænt hunang. Sjálf kókosolían hefur fyrir löngu sannað heilnæmt hlutverk sitt en einn ef helstu kostum kókosolíunnar er að hún örvar meltinguna. Svo herma heimilidir í það minnsta en fitusýrurnar sem fyrirfinnast í kókosolíunni geta þannig stuðlað að þyngdartapi.

cacao-powder-beans-800px-pic2

 

Að ekki sé minnst á sjálft hrákakóið, sem er ein öflugasta uppspretta andoxunarefna sem fyrirfinnast í náttúrunni. Bláber, granatepli og trönuber blikna í samanburði við hlutföll andoxunarefna sem hrákakó býr yfir. Samviskubitið á því heima djúpt niðri í skúffu – hér er uppskriftin!

UPPSKRIFT AÐ HANDGERÐU DÖKKU HEILSUSÚKKULAÐI:

1 bolli lífræn kókosolía

1 bolli hrákakó (raw cacao)

½ bolli lífrænt ræktað hunang

1 tsk ferskar vanillubaunir

klípa af sjávarsalti

4241013a-f1.2-600x675

LEIÐBEININGAR:

Bræðið kókosolíuna við lágan hita á grunnri pönnu. Fjarlægið af hellunni og hrærið öllum innihaldsefnum saman við olíuna. Hellið nú innihaldinu í smá konfektmót. Einnig er hægt að notast við smágert kökuform – en þá er ágætt að klæða botninn með smjörpappír.

Látið standa í kæli í fáeinar mínútur, þar til súkkulaðið storknar. Takið úr kæli og fjarlægið molana úr konfektmótunum, ef slík mót voru notuð – ef kökumót varð fyrir valinu, lyftið þá einfaldlega smjörpappírnum upp og brjótið súkkulaðið í litla mola.

Súkkulaðið má einnig geyma í frysti!

ATH: Í stað þess að setja súkkulaðið inn í ísskáp er einnig hægt að nota fljótandi, dökkt súkkulaðið sem ídýfu og bera fram með niðurskornum, ferskum ávöxtum að eigin vali. Bananar, jarðarber, mandarínur eða epli; þitt er valið!

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!