KVENNABLAÐIÐ

Rannsókn – Konur upplifa dýpri ástarsorg en karlar syrgja lengur

Konur eru fljótari að gróa sára sinna eftir skilnað en karlar og hafa meiri möguleika á að byggja upp nýtt líf í kjölfarið, þó ekki fyrr en mesti sársaukinn er genginn yfir. Konur upplifa dýpri ástarsorg rétt eftir sambandsslit, en yfir karlana þyrmir þegar ákveðinn tími er liðinn frá skilnaði.

Þetta sýna niðurstöður áhugaverðrar rannsóknar sem náði til 5.705 einstaklinga í 96 löndum og framkvæmd var á vegum breska háskólans Binghamton University og University College of London, sem birtist í fagtímaritinu Evolutionary Behaviroral Sciences fyrir skömmu.

Þrátt fyrir að konur upplifi meiri tilfinningalegan og líkamlegan sársauka, virðast þær mun fljótari að yfirstíga sorgina og ná fyrri styrk aftur, eða löngu áður en karlarnir eru farnir að átta sig á alvöru málsins. Þegar svo þyrmir yfir karlana er yfirleitt orðið of seint að taka upp þráðinn að nýju, því konurnar hafa byggt upp nýjan lífstíl sem rúmar ekki gamla makann. Þá virðast karlar aldrei fyllilega ná sér eftir sambandsslit – þeir halda einfaldlega áfram með lífið og tilveruna.

Þannig segir Craig Morris, sem leiddi sjálfa rannsóknina í fréttatilkynningu:

Stutt ástarævintýri konu getur leitt til níu mánaða meðgöngu og áralangrar brjóstagjafar fyrir konu en karlinn getur hæglega stungið af í bókstaflegri merkingu, jafnvel fáeinum mínútum eftir að getnaður á sér stað. Það er þessi áhætta sem formæður okkar stóðu frammi fyrir þegar þær leyfðu sér kynferðislega nánd, sem aftur merkir að konur urðu og verða enn að vanda valið þegar þær velja sér maka. Þess vegna upplifir konan þyngra sorgarferli en karlinn við sambandsslit. Sér í lagi ef sambandið stóð á traustum fótum áður og ábyrgð er komin i spilið.

Þá segir Morris einnig að karlinn upplifi sorgina ekki strax; ekki fyrr en hann áttar sig á því að nú verður hann að hefja samkeppni við aðra karlmenn aftur.

Það er þá og ekki fyrr, sem karlmaðurinn fer að upplifa djúpa sorg og það er langt og strangt ferli, því samkeppnin getur verið hörð og þegar karlinn er loks orðinn frjáls rennur oft upp fyrir honum að missirinn sem hann varð fyrir í skilnaðarferlinu er óbætanlegt tjón.

Þegar konur hafa gróið sára sinna eftir skilnað, upplifa þær meiri sátt en karlarnir og skiptir þá engu hvort um gagnkynhneigt eða samkynhneigt samband er að ræða. Einhverjir karlar jafna sig hins vegar aldrei eftir skilnað, þrátt fyrir að bera sig vel í fyrstu, þar sem þeir geta ekki endurheimt fyrri lífsgæði.

Lesa má meira um niðurstöður rannsóknarinnar HÊR

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!