Svo þú heldur að þú eigir í höggi við siðblindan einstakling, hafir jafnvel orðið ástfangin/n af einum slíkum? Í raun eru fjölmörg tákn á lofti þegar siðblindingjar eiga í hlut; þar á meðal tilhneiging til að ljúga, heillandi en siðlaus framkoma og útblásið sjálf.
En hér kemur staðreynd sem ekki margir vita: Siðblindingjar smitast ekki af geispum.
Þetta sýnir ný rannsókn fram á, þar sem fram kemur að siðblindir einstaklingar – fólk sem skortir samkennd með öðrum og sýnir af sér andfélagslega hegðun – er oftar en ekki ónæmt fyrir smitandi geispum, öfugt við okkur hin.
Rannsóknin sjálf og niðurstöður hennar, sem verð gerðar opinberar í fagritinu Personality and Individual Differences í byrjun nóvember, var framkvæmd af sálfræðiteymi við Baylor háskólann í Texas og sýndi fram á að kaldlyndir einstaklingar eru síður líklegri til að geispa í kjölfar þess að önnur manneskja geispar.
Fæstir geta barist við geispatilfinninguna þegar annar nærstaddur geispar eða sýnir þreytumerki (ertu ekki örugglega farin/n að geispa við lesturinn?) en smitandi áhrif geispa eru augljós merki um samkennd með öðru fólki og sýna um leið fram á getu til að mynda félagsleg tengsl og viðhalda þeim.
Í viðtali við Huffington Post sem greinir frá niðurstöðunum, segir Brian Rundle, doktorsnemi við háskólann og einn af höfundum rannsóknarinnar að siðblinda sé að hluta skilgreind af vangetu einstaklings til að upplifa samkennd með öðru fólki og geti þar með sjaldan sett sig í spor annarra.
Sú staðreynd að siðblindir geta ekki einu sinni geispað öðru fólki til samlætis, sýnir fram á að þeir hinir sömu eiga í mestu erfiðleikum með að upplifa samkennd með öðrum.
Auðvitað er þó engin ástæða til að hrapa umyrðalaust að ályktunum; það eitt að viðkomandi geispi ekki í takt við félaga sína þarf ekki að vera merki um hreina siðblindu. Það segir Brian Rundle vera hreina einföldun á annars flókinni greiningu.
En þó veitir þetta taugasérfræðingum dýpri skilning jafnt á siðblindu og þörfinni til að geispa í einrúmi og því að smitast auðveldlega af geispum nærstaddra.