KVENNABLAÐIÐ

DIY – Klóraðir grenikönglar eru frábærir í haustskreytingar!

Sælar elskurnar! Er ekki haustið dásamlegt? Frú Sykurmola finnst það og ekki spillir útsýnið í Öskjuhlíðinni fyrir. Allir grenikönglarnir, elskurnar! Af hverju ætti Frúin annars að vera á þvælingi milli grenitrjánna?

Frúin fer með poka í Öskjuhlíðina um helgar, gullin mín, týnir nokkra köngla og svo er tekið til við klórinn. Af hverju? Jú, því hvítir grenikönglar koma svo ægilega sterkir inn í haust. Hugsið ykkur bara allar aðventuskreytingarnar og Guð einn má vita hvað!

Smart hjá honum Jonathan, ekki satt? 

8f456967-ae10-48bd-ab3f-bdb7c6615b28 (1)

Þetta er svo bara alls ekkert mál! Kostar örlitla þolinmæði, klórlyktin er auðvitað ekkert skemmtileg og könglarnir þurfa að þorna – en gasalega eru þeir flottir, þessir hvítu! Prófið bara! Frúin fann uppskriftina gegnum Pinterest – hvar annars staðar – en svona býrðu til hvíta greniköngla!

c8210c93-62b9-400b-add9-773811965318

Þú þarft til verksins:

Greniköngla

Fljótandi klór – heilan brúsa

Vænt og rúmgott plastílát

Gúmmíhanska

Keramik – eða glerdisk

Múrstein – hann má vera brotinn

Gömul dagblöð

facc7e32-86fe-4d11-a0f2-c67c9c527a34

#1 – Settu grenikönglana ofan í plastílátið / plastfötuna

Byrjaðu á því að breiða dagblöð undir fötuna sjálfa, ef vera skyldi að klórinn skvettist upp úr – því ekki viltu fá klórslettur á sjálfan undirflötinn! Dustaðu mestu moldina og óhreinindin af grenikönglunum og hagræddu þeim því næst í plastfötunni. Best er að velja litla plastfötu svo klórinn fljóti yfir grenikönglana þegar blandan er frágengin. Þú getur vel notað klórinn aftur og aftur, þegar þú hefur fjarlægt grenikönglana – þú getur sett fleiri greniköngla ofan í og endurtekið allt ferlið upp á nýtt.

df48ac8f-bbd7-4006-95e3-0b40fc82d22a

#2 – Helltu nú klórnum ofan í plastfötuna

Hægt og rólega skaltu nú hella klórnum sjálfum ofan í plastílátið, allt þar til klórinn flýtur yfir grenikönglana sjálfa, sem eiga að vera undir yfirborðinu.

fcd4910d-d3d3-4fcd-b058-3a56bd2ba969

#3 – Leggðu múrsteininn ofan á grenikönglana í fötunni

Hér kemur múrsteinninn til sögunnar; könglarnir fljóta nefnilega upp á yfirborðið og ef þú þrýstir þeim ekki undir yfirborðið með múrsteininum, koma þeir mislitir upp úr klórnum. Fyrst skaltu leggja keramikdiskinn ofan á könglana og ofan á diskinn skaltu leggja múrsteininn. Gættu þín á að klæðast gúmmíhönskum, þar sem þú ert að meðhöndla sterk efni og vilt ekki erta hörundið á höndunum.

6707e53c-967c-4e24-bf2a-8ddf97381e1d

#4 – Taktu nú grenikönglana upp til þerris

Ferlið ætti að taka u.þ.b. hálfan til einn sólarhring – ágætt er að miða við að könglarnir liggi í bleyti yfir nótt. Ekki láta lengri tíma en einn sólarhring líða og láttu þér ekki koma á óvart þó könglarnir hafi lokað sér meðan á ferlinu stóð. Fjarlægðu fyrst múrsteininn og svo keramikdiskinn, taktu að lokum könglana upp úr klórblöndunni og mundu að nota gúmmíhanska.

Best er að leggja grenikönglana til þerris utandyra, (jafnvel úti á svölum) þar sem klórlyktin er sterk í byrjun en ferskt útiloftið dregur úr dauninum. Settu einfaldlega dagblöð á þurran og traustan skjóstað utandyra, leggðu könglana ofan á dagblöðin og leyfðu þeim að þurrka sig náttúrulega. Könglarnir opna sig aftur þegar þeir þorna.

*ATH: Ef þig langar í ilmandi greniköngla, skaltu hagræða þeim í lokuðu íláti þegar þeir hafa þerrast úti við og dreypa ilmkjarnaolíu yfir þá – geyma í mánuð við stofuhita og opna svo einfaldlega ílátið þegar tími er kominn til skreytinga! 

Þýtt og endursagt: ehow.com

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!