Sælar elskurnar! Er ekki haustið dásamlegt? Frú Sykurmola finnst það og ekki spillir útsýnið í Öskjuhlíðinni fyrir. Allir grenikönglarnir, elskurnar! Af hverju ætti Frúin annars að vera á þvælingi milli grenitrjánna?
Frúin fer með poka í Öskjuhlíðina um helgar, gullin mín, týnir nokkra köngla og svo er tekið til við klórinn. Af hverju? Jú, því hvítir grenikönglar koma svo ægilega sterkir inn í haust. Hugsið ykkur bara allar aðventuskreytingarnar og Guð einn má vita hvað!
Smart hjá honum Jonathan, ekki satt?
Þetta er svo bara alls ekkert mál! Kostar örlitla þolinmæði, klórlyktin er auðvitað ekkert skemmtileg og könglarnir þurfa að þorna – en gasalega eru þeir flottir, þessir hvítu! Prófið bara! Frúin fann uppskriftina gegnum Pinterest – hvar annars staðar – en svona býrðu til hvíta greniköngla!
Þú þarft til verksins:
Greniköngla
Fljótandi klór – heilan brúsa
Vænt og rúmgott plastílát
Gúmmíhanska
Keramik – eða glerdisk
Múrstein – hann má vera brotinn
Gömul dagblöð
#1 – Settu grenikönglana ofan í plastílátið / plastfötuna
Byrjaðu á því að breiða dagblöð undir fötuna sjálfa, ef vera skyldi að klórinn skvettist upp úr – því ekki viltu fá klórslettur á sjálfan undirflötinn! Dustaðu mestu moldina og óhreinindin af grenikönglunum og hagræddu þeim því næst í plastfötunni. Best er að velja litla plastfötu svo klórinn fljóti yfir grenikönglana þegar blandan er frágengin. Þú getur vel notað klórinn aftur og aftur, þegar þú hefur fjarlægt grenikönglana – þú getur sett fleiri greniköngla ofan í og endurtekið allt ferlið upp á nýtt.
#2 – Helltu nú klórnum ofan í plastfötuna
Hægt og rólega skaltu nú hella klórnum sjálfum ofan í plastílátið, allt þar til klórinn flýtur yfir grenikönglana sjálfa, sem eiga að vera undir yfirborðinu.
#3 – Leggðu múrsteininn ofan á grenikönglana í fötunni
Hér kemur múrsteinninn til sögunnar; könglarnir fljóta nefnilega upp á yfirborðið og ef þú þrýstir þeim ekki undir yfirborðið með múrsteininum, koma þeir mislitir upp úr klórnum. Fyrst skaltu leggja keramikdiskinn ofan á könglana og ofan á diskinn skaltu leggja múrsteininn. Gættu þín á að klæðast gúmmíhönskum, þar sem þú ert að meðhöndla sterk efni og vilt ekki erta hörundið á höndunum.
#4 – Taktu nú grenikönglana upp til þerris
Ferlið ætti að taka u.þ.b. hálfan til einn sólarhring – ágætt er að miða við að könglarnir liggi í bleyti yfir nótt. Ekki láta lengri tíma en einn sólarhring líða og láttu þér ekki koma á óvart þó könglarnir hafi lokað sér meðan á ferlinu stóð. Fjarlægðu fyrst múrsteininn og svo keramikdiskinn, taktu að lokum könglana upp úr klórblöndunni og mundu að nota gúmmíhanska.
Best er að leggja grenikönglana til þerris utandyra, (jafnvel úti á svölum) þar sem klórlyktin er sterk í byrjun en ferskt útiloftið dregur úr dauninum. Settu einfaldlega dagblöð á þurran og traustan skjóstað utandyra, leggðu könglana ofan á dagblöðin og leyfðu þeim að þurrka sig náttúrulega. Könglarnir opna sig aftur þegar þeir þorna.
*ATH: Ef þig langar í ilmandi greniköngla, skaltu hagræða þeim í lokuðu íláti þegar þeir hafa þerrast úti við og dreypa ilmkjarnaolíu yfir þá – geyma í mánuð við stofuhita og opna svo einfaldlega ílátið þegar tími er kominn til skreytinga!