Það kemur fyrir að ég rek nefið ofan í kommentakerfi fjölmiðla. Ég læt þá íslensku vera að mestu; enda fráflutt og ægilega fín með mig. En það gerist að ég skrifa athugasemdir. Hárbeittar línur að eigin mati, orð sem ætti að heiðra mig fyrir.
Því fylgir einhver sefandi vissa að láta réttsýnar skoðanir flakka. Í dag réðist ég til að mynda gegn Cosmopolitan og karllægum umfjöllunum glamúrbiblíunnnar, sem birtir einungis greinar um kynlífsstellingar sem henta körlum. Nema ef vera skyldi grunnhyggnar umfjallanir um samkynhneigðar konur. Þær fá, blessunarlega, athygli líka, (sennilega telur Cosmo lesbíur hafa öflugra markaðsgildi en gagnkynhneigðar kynsystur þeirra) – en það er önnur og flóknari saga en ég ætla að rekja hér.
Þetta ritaði ég í athugasemdakerfi Cosmopolitan þegar umfjöllun um bestu kynlífsstellingar fyrir stjörnumerkið HANS flögraði fyrir augum mínum á Facebook. Því fylgdi léttir að ýta á ENTER; einhver óljós vissa um að úti í hinum stóra (og enskumælandi) heimi, sætu jafnvel hlédrægar húsmæður við skjáinn og rækju upp gleðivein þegar orð mín birtust í athugasemdakerfi miðilsins á Facebook.
Ég lét allt flakka á Facebook síðu Cosmopolitan við sólarupprás í dag:
Cosmo gerði enga athugasemd við orð mín. Sennilega eru þau upptekin við að deila fleiri tenglum þó vera kunni að einhver frá ritstjórnarteyminu líti athugasemdina augum, sem þó fljótlega drukknar í fjölda geðvonskuhnýtinga frá réttsýnum samlesendum mínum á samskiptamiðlinum.
Jezebel tók hins vegar ekki jafn vel í beinskeytta ábendingu mína fyrir skömmu, en í það skiptið var ég að gagnrýna heimildaöflun blaðamanns sem virtist heltekinn af þeirri staðreynd að ungur maður af hvítum kynþætti, sem reyndar myrti svo föður sinn, óskaði þess að mega sækja jógatíma innan veggja Rikers. Ég dró djúpt andann í það skiptið, gaf mér nægan tíma til að skrifa athugasemdina (sem EKKI var samþykkt) og bað ritstjórnarteymið að hafa hugfast að niðrandi umfjallanir um fangelsisjóga gætu hæglega kostað fanga í afplánun lífið.
Ritstjórn Jezebel ritskoðar allar athugasemdir – mín var ekki samþykkt:
Því fylgir stundum einhver óútskýrður léttir að skrifa athugasemdir í kommentakerfi alþjóðlegra fjölmiðla. Ég er stórtæk, ræðst jafnvel gegn Reuters, gagnrýni Jezebel fyrir slæleg vinnubrögð og rek upp femínísk vein í athugasemdakerfi Cosmopolitan. Læt innlenda miðla með öllu eiga sig, naga þess í stað neglurnar þegar einhvern þjóðarbetrunginn rekur á fjörur mínar og leyfi þeim Íslendingum sem enn búa á ylhýra, ástkæra – að taka senuna yfir.
Hver veit hvers bjöguð bókmenntaenska mín er í raun megnug?
Ég get sannast sagna ekki svarað þeirri áleitnu spurningu hvers vegna ég finn mig stundum knúna til að rita athugasemdir í kommentakerfi erlendra fjölmiðla. Hárbeittar glósur (eða ekki) sem stundum miða að því einu að vísa til andlegra yfirburða minna, flugbeittrar réttsýni og víðsýnum viðhorfum Norður-Evrópubúa taka einfaldlega stundum vitund mína yfir. Stundum – og ekki spyrja mig af hverju – þarf ég einfaldlega að sýna heimsbyggðinni fram á þá staðreynd að ég hef rétt fyrir mér. Ég læt þó vera að uppnefna blaðamenn en það mun andleg íþrótt sem nýtur stöðugt meiri vinsælda á netinu, þó ég hafi verið nokkuð viðskotaill í eintali mínu við ritstjórn Jezebel fyrir skömmu.
Hér má sjá hvað gerðist þegar breski dálkahöfundurinn og rithöfundurinn Owen Jones, sem um langt skeið mátti þola árásir nettrölla gegnum Twitter og athugasemdakerfi Guardian gaf undan og bauð sínum helsta gagnrýnanda upp á kaldan bjór. Þegar öllu er á botninn hvolft, eru það nefnilega manneskjur af holdi og blóði sem orðin rita og blaðamenn eru ekki ónæmir fyrir árásum sjálfir: