Ég held að margir sem hekla, sérstaklega þeir sem eru handóðir eins og ég, skilji það alveg að það gengur ekki að fara upp í sumarbústað án þess að hafa eitthvað til að hekla!
Ég lenti í því í sumar að gleyma ÖLLU hekldótinu mínu heima þegar við skruppum í bústaðinn. Ohh, það var ömurlegt fyrsta kvöldið að hafa ekkert að leika með í höndunum og róa hausinn eftir allt stressið eftir að koma öllu og öllum út úr húsinu fyrr um daginn.
En því var reddað strax deginum á eftir þegar það var farið í smá búðarferð. Þá var keypt 1 dokka af Smart garni og nál nr 5,5 í Hagkaup. Hvað átti að hekla úr því var óvitað á þeim tíma.
Þegar við komum aftur upp í bústað leið ekki langur tími þar til nýkeypta „dótið“ var tekið upp. Strax hugsaði ég um að gera eitthvað með köðlum, kannski eyrnaband eða armband eða eitthvað svoleiðis, eitthvað lítið og nett og fljótgert. Svo byrjaði ég að hekla. Ég hélt að ég væri að telja rétt en eftir grunn umferðina þá tók ég eftir að ég var með of mikið fyrir bara kaðla, þá fór hausinn á fullt þar sem ég nennti ekki að rekja upp. Lausnin var að setja súlur utan um kaðlana.
Loka útkoman var mjög flott og fékk ég strax athugasemdir frá bústaðarfélögum mínum um að ég ætti að skrifa uppskriftina niður svo fleiri gætu notið þessa fallega munsturs. Og það gerði ég og er útkoman hér fyrir neðan. Ég vona að sem flestir geta notið uppskriftarinnar.
Kaðlaeyrnaband
Efni: Hægt er að nota hvaða garn sem er og hvaða nálastærð sem er, en því grófara garnið og stærri nál því stærra verður bandið.
Skammstafanir:
L – Lykkja : LL – Loftlykkja : ST – Stuðull :
ABST – Afturbrugðinn stuðull :
FBST – Frambrugðinn stuðull :
FBTST – Frambrugðinn tvöfaldur stuðull
Útskýringar:
Afturbrugðinn er þegar farið er utan um stuðulinn fyrir neðan aftan frá þannig lykkjan ofan á neðri stuðlinum sést framan á.
Frambrugðinn er þegar farið er utan um stuðulinn fyrir neðan framan frá þannig að lykkjan ofan á neðiri stuðlinum sést ekki.
Uppskrift:
Heklið 18 LL, ST í 3 LL frá nál, ST út umferðina, snúið við.
1: 1 LL, FBST, ABST, sleppa næstu 2 L, FBTST í næstu 2 L, FBTST í fyrri af 2 slepptu L yfir fyrri 2 FBTST, FBTST í seinni af 2 sleppti L yfir fyrri 2 FBTST (Kaðall 1), ABST, FBST, ABST, sleppa næstu 2 L, FBTST í næstu 2 L, FBTST í fyrri af 2 slepptu L undir fyrri 2 FBTST, FBTST í seinni af 2 slepptu L undir fyrri 2 FBTST(Kaðall 2), ABST, FBST, ST, snúið við.
2: 1 LL, ABST, FBST, 4x ABST, FBST, ABST, FBST, 4x ABST, FBST, ABST, ST, snúið við.
3: Endurtakið umf. 1 og 2 þar til bandið er nógu langt, endið á umf. 1
Samsetning: Sauma saman þannig að kaðlarnir og súlurnar passi saman (sauma fram-, og afturbrugðið)
Skola – Nota – Njóta!