Systurfyrirtæki H & M, sem ber heitið & Other Stories valdi eingöngu transfyrirsætur til að kynna haustlínu sína í ár, en auk þeirra Hari Nef og Valentijn De Hingh sem fara í forgrunni og kynna sjálfa línuna, má þess einnig geta að fagteymið sem starfaði á bak við linsuna er einnig transfólk.
Þannig valdi & Other Stories ljósmyndarann Amos Mac til að festa haustlínuna á filmu, það var Love Bailey sem stílíseraði settið og förðun var í höndum förðunarmeistarans Ninu Poon.
Í fréttatilkynningu sem birtist á vef TIME segir Sara Hildén Bengston, listrænn stjórnandi & Other Stories að tískuheimurinn hafi loks umfaðmað transfyrirsætur og að tískurisanum þyki það heillandi:
En við gátum þó ekki annað en velt vöngum yfir því hvort yfirbragð hefðbundinnar framsetningar á tískulínu tæki breytingum ef fagmennn sem skilgreina sig sem transfólk væru líka að störfum á bak við linsuna. Svo við réðum til okkar frábært fagfólk sem allt skilgreinir sig sem transmanneskjur, til að festa haustlínu &Other Stories á filmu og hér má sjá útkomuna.
& Other Stories er nýjasta tískumerkið sem ríður á vaðið og styður þannig við réttindi og sýnileika transfólks með því að brjóta upp hefðbundnar kynningar á tískulínu sinni á þessa vegu, en fyrr á þessu ári varð transmódelið Andreja Pejic fyrir valinu sem andlit snyrtivörurisans Make Up Forever og má þess einnig geta að fyrsta módelskrifstofan fyrir transfyrirsætur opnaði nýverið í Los Angeles.
Skoða má haustlínu & Other Stories gegnum vefverslun tískulínunnar frá og með 20 ágúst nk.