Skemmtilega umfjöllun um rammíslenska OMNOM súkkulaðið er að finna í nýjasta tölublaði breska Vogue, þar sem greinarhöfundur fer fögrum orðum um sælkeramolana og klykkir út með því að ofursmátt og framsækið fyrirtæki í Reykjavík standi að baki ómótstæðilegum freistingum OMNOM, sem augljóslega falla hátískuheiminum vel i geð.
Forsíðuna prýðir engin önnur en Emma Watson en í gjafadálk bresku tískubiblíunnar leggur ritstjórn eindregið til að lúxussúkkulaði frá OMNOM verði fyrir valinu í sælkerapakkann, þar sem íslenska OMNOM sælkerasúkkulaðið sé margverðlaunað og ægilega ljúffengt í ofanálag.

Þess má til gamans geta að rammíslensku OMNOM sælkeramolarnir eru m.a. fáanlegir í verslunum Selfrigde í London, en framleiðslan er margverðlaunuð. Þannig hlaut OMNOM skandinavíska gullið við afhendingu Alþjóðlegu Súkkulaðiverðlauna árið 2015, en OMNOM hlaut bronsverðlaun í Evrópuflokki við sama tækifæri í fyrra.

Þá hlaut sælkeralínan fjölmargar viðurkenningar frá Bresku Súkkulaðiakademínunni fyrr á þessu ári í formi brons- og silfurverðlauna fyrir súkkulaðilinuna sem OMNOM framleiðir. Því varla nema von að Vogue skuli fylgja í humátt á eftir úrskurði þeirra allra bestu og heiðra íslenska sælkeraframleiðslu með þessari skemmtilegu gjafatillögu á síðum tískubiblíunnar.
Til hamingju, OMNOM!