Elizaveta Bulokhova var einungis gengin mánuð á leið með fyrsta barn sitt, þegar læknir hennar greindi hinni verðandi móður frá því að hún væri með beinkrabbamein.
Í kjölfar fregnanna var Elizavetu, sem er starfandi fyrirsæta, ráðlagt að fara í fóstureyðingu vegna yfirgnæfandi hættu á að meðferðin sem hún yrði að undirgangast sökum beinkrabbans, myndi skaða fóstrið.
Saga Elizavetu er heillandi, átakafull og sterk allt í senn, en ljósmyndirnar sem hér má sjá eru þær fyrstu sem teknar voru af fyrirsætunni ásamt nýfæddum syni sínum og eiginmanni, fáeinum mánuðum eftir að sonur þeirra kom í heiminn.
Fjarlægja þurfti meirihluta af kjálka hennar og byggja upp að nýju skömmu eftir fæðingu sonar hennar en með ljósmyndaseríunni sem hér má sjá segir Elizaveta sjálf í viðtali við Cosmopolitan að hún hafi viljað hvetja aðra til þess að umfaðma sjálfan sig og beina kærleikanum inn á við.
Þrátt fyrir eindregin fyrirmæli lækna sem voru á þá leið að Elizaveta ætti að undirgangast fóstureyðingu, þar sem lyfjameðferð myndi gera út af við barnið í móðurkviði, ákvað þessi hugrakka móðir að bíða fram yfir fæðingu barnsins.
Auðvitað dró sú ákvörðun mín úr lífslíkum mínum. En ég ákvað að taka því sem höndum bæri; að ég væri reiðubúin að takast á við niðurstöðuna. Ég tók einn dag í einu.
Fyrsta skurðaðgerðin heppnaðist ekki sem skyldi og því ákváðu læknar að bíða með lyfjameðferð við beinkrabbanum og þannig lánaðist Elizavetu að fæða son sinn, Valentin, í heiminn en barnið var tekið með keisaraskurði. Nú hefur Elizaveta loks undirgengist lyfjameðferð og hefur að öllum líkindum sigrast á krabbameininu í kjölfarið.
Ég trúi því varla sjálf að ég sé orðin móðir og að ég skuli hafa stofnað mína eigin fjölskyldu.
Elizaveta, sem er starfandi fyrirsæta, þurfti eðlilega að taka sér hlé frá störfum sökum krabbameinsins og meðgöngunnar og segir að stórkostlegt hafi verið að ganga aftur inn í stúdíó til að sitja fyrir ásamt nokkurra mánaða gömlum syni sínum og unnusta sínum, sem heitir Roman Troubetskoi.
Það var dásamlegt, mér leið eins og ekkert væri breytt. Mér leið eins og ég hefði tekið upp þráðinn að nýju og að allt væri eins og það var fyrir ári síðan. Myndatakan hafði mjög uppbyggjandi áhrif á mig og alveg eins og allar heimavinnandi mæður vita, er sá tími sem þú veitir sjálfri þér verulega dýrmætur. Að upplifa myndatökuna var eins og að eyða deginum í heilsulind.
Elizaveta lagði ríka áherslu á að ljósmyndarinn sjálfur, sem heitir Manolo Ceron, tæki ekki einungis myndir af litlu fjölskyldunni heldur næði einnig að fanga allar þær breytingar sem hún hefur farið í gegnum.
Ég bað Manolo að ljósmynda öll örin sem ég ber. Ég vildi umfaðma eigin ör, því mér finnst þau mögnuð ásýndar. Skurðlæknirinn vann stórkostlegt verk og ég lít svo á að örin mín séu lifandi vitnisburður; þau eru listaverk.
Ég vil áminna fólk um að við sjálf skilgreinum hvað er fagurt og æskilegt. Þín innri líðan ákvarðar hversu fögur þú ert. Ef þú elskar sjálfa þig ertu í raun ósigrandi, jafnvel þó krabbamein komi til. Ófullkomleikinn verður fagur í þínum augum. Örin, hárlaus líkaminn; allt þetta minnir þig á hversu sterkur einstaklingur þú ert – þú sem sigraðist á krabbameini. Þú finnur jafnvel fyrir stolti vegna eigin persónueinkenna og það er mikilvægast alls – þinn innri styrkur og geta þín til að yfirstíga allt sem stendur í vegi fyrir þér. Mér finnst ég vera falleg og það er ástæða þess að ég er falleg.