Forsíða septembertölublaðs VOGUE var afhjúpuð í dag á vef tískurisans og það er enginn önnur en sjálf Beyoncé sem prýðir forsíðuna að þessu sinni. Mario Testino tók ljósmyndirnar af Beyoncé en sjálf er hún íklædd lavenderblárri samfellu sem alsett er flúruðum blómum, með blazerjakka kæruleysislega á annarri öxlinni.
Þá vekur hárstíllinn einnig athygli þar sem útlit og ásjóna stjörnunnar, sem horfir tælandi augum í linsuna þykir minna óneitanlega á stílinn sem einkenndi myndbandið við stórlagið Drunk In Love.
Þetta er í þriðja sinni sem Beyoncé prýðir forsíðu Vogue; hún prýddi forsíðu tískubiblíunnar í fyrsta sinn í aprílmánuði 2009 og svo aftur í marsmánuði árið 2013. Í þetta skiptið brýtur hún hins vegar blað í sögu hátískunnar, þar sem hún er þriðja konan af afrísk-bandarískum uppruna sem landar forsíðu septembertölublaðsins.
Ofurfyrirsætan Naomi Campell og Óskarsverðlaunahafinn Halle Berry hafa áður prýtt forsíðu veigamesta tölublaðs Vogue; nefnilega í september – en tölublaðið leggur línurnar í hátískuheiminum og þykir mikill heiður að komast á síður tískubiblíunnar á haustmánuðum.
Útgáfu septembertölublaðsins, sem leggur línurnar í tískuheiminum á komandi mánuðum hvert ár, er iðulega beðið með eftirvæntingu; því þykir heyra til stórtíðinda að Beyoncé skuli birtast á forsíðu. Sjálf forsíðutilvitnunin segir:
Just B – Beyoncé and the Art of Global Domination.
Ofangreinda forsíðutilvitnun mætti lauslega þýða og útleggja á íslensku sem:
Bara B – Beyoncé og sú list að ná heimsyfirráðum.
Erfitt er að segja til um hvað Beyoncé er í raun að kynna þegar þessi orð eru skrifuð, en septembertölublað Vogue kemur ekki út fyrr en 25 ágúst nk. Sjálf hefur söngdívan ekki ýjað að neinum yfirvofandi útgáfuverkefnum, þó aldrei sé í raun hægt að vita hvað Beyoncé er í raun að bauka, þar sem hún er þekkt fyrir að viðhalda dulúð og spennu. Hún gaf þannig orðalaust út breiðskífu síða árs 2013, sem rauk beint upp á topp allra vinsældalista.
Hér má sjá myndband sem tekið var að tjaldabaki og birtist á vefsíðu bandaríska Vogue, en þau Mario Testino og forsíðustúlkan Beyoncé birtast hér að störfum í ónefndri glæsivillu; nærbuxnalaus söngdívan svífur léttstíg um í gegnsæjum og kolsvörtum kjól og Louboutin pinnahælum og við bíðum í ofvæni eftir útgáfunni – sem einnig er hægt að panta í gegnum vef AMAZON en það mun vera nýjung í útgáfusögu Vogue: