Sælar elskurnar! Þá er Frúin loks mætt á svæðið eftir langt og blautt sumarfrí! Vopnuð korktöppum, með puttann á Pinterest og gasalega skotin í öllu þessu útlenska skrauti sem þær eru alltaf að dúlla við þarna í útlandinu.
Þessi korktappaumfjöllun er auðvitað svo bara viðurkenning á verkum annarra, því aldrei myndi Frúin stela hugmyndum. Hvarflar ekki að Frúnni, sem er á öðru kampavínsglasinu í dag – svamlandi í korktöppum og gasalega lukkuleg!
En hér er hann! Korktappakransinn sem útlenska mærin fjallar um á vefsíðu sinni. Svo smart hjá henni að Frúin varð að fá sér í aðra tánna, en auðvitað var það bara gert til að ná blessuðum tappanum í kransinn!

Þetta eru hráefnin, elskurnar mínar:
Myndarlegur og bústinn strá / korkhringur (ca. 30 cm í þvermál)
U.þ.b. 150 til 200 myndarlegir korktappar (léttvíns, bjór og kampavínstappar)
Límbyssa og ca. 2 límstifti til áfyllingar á límbyssuna
60 cm langur skrautborði með víravirki til stuðnings

1. Byrjaðu á því að flokka korktappana; litlausari korktapparnir fara neðst á kransinn og mynda grunninn en fallegri og skrautlegri korktapparnir fara efst á kransinn og setja punktinn yfir I-ið. Þetta auðveldar þér verkið þegar á líður. Taktu ákvörðun um hvernig tapparnir eiga að snúa áður en þú límir þá fasta; þetta skiptir miklu máli. Best er að byrja verkið á að líma minnstu tappana á neðanverða miðjuna, með það í huga að skrautborðinn verði festur á ofanverðan kransinn að lokum.

2. Þá skaltu bara byrja að líma tappana á kransinn! Gættu þín á því að líma ekki tappana of langt aftur á kransinn, því þá liggur kransinn ekki beinn á hurðinni / veggnum þegar hann er að lokum hengdur upp til skrauts. Raðaðu korktöppunum gjarna sitt á hvað og láttu þá skarast skemmtilega – sérstaklega ef bókstafir hafa verið brenndir inn í korkinn þegar tappinn var framleiddur. Þetta er eitt af þeim skemmtilegu smáatriðum sem gerir kransinn fallegan ásýndar.

3. Já, stokkaðu upp mynstrið og leiktu þér að forminu; ímyndaðu þér TETRIS tölvuleikinn eða óreglulegt púsluspil. Skiptu milli lóðréttra og láréttra, skávísandi og vertu óhrædd/ur við að raða einum tappa ofan á annan! Gleymdu svo ekki að gæta þín á límbyssunni, sem er sjóðandi heit og enginn vill enda með brennda fingurgóma …

4. Galdurinn er í raun sá að þekja kransinn svo að hvergi sé hægt að sjá í grunninn … fyrir skrautlegum korktöppunum. Þegar þú ert orðin sátt / ur við útkomuna, er ekkert annað eftir en að sækja skrautborðann, vefja fallega utan um kransinn sjálfan og leyfa endunum að blómstra fallega niður á vegginn eða hurðina, þar sem ætlunin er að hengja skrautkransinn upp.