Gleðigangan verður farin í dag, laugardaginn 8 ágúst, í Reykjavík og leggur gangan af stað frá Vatnsmýrarvegi kl. 14.00 – en gangan fer framhjá Umferðarmiðstöðinni, eftir Sóleyjargötu, Fríkirkjuvegi og Lækjargötu. Að göngunni lokinni hefst hátíðardagskrá við Arnarhól sem stendur til kl. 17.30
Eru íbúar Reykjavíkur og gestir beðnir að sýna umburðarlyndi og sveigjanleika, en á vef Reykjavíkurborgar er gangandi bent á að nýta sér þjónustu Strætó. Einnig er ökumönnum bent á að nýta sér bílastæðahús, en á vef borgarinnar kemur fram að bílastæðahúsin hafi oft verið illa nýtt meðan á hátíðarhöldum hefur staðið. Engin ástæða sé til að leggja bílum ólöglega þar sem bílastæði sé að finna víða um borgina. Þá hafa leigubílar aðstöðu til að taka upp farþega í Ingólfsstræti, bak við styttuna af Ingólfi Arnarsyni meðan á götulokunum stendur.
Allar upplýsingar um gönguna má finna á vef Hinsegin Daga en hér er kort af göngunni: