Ég hafði enga hugmynd um að Gleðigönguna myndi bera upp þann sama dag og ég ók til Madrid í sumar. Reyndar ætlaði ég mér ekki einu sinni að fara til Madrid. Ég var stödd í sumarleyfi á suðurhluta Spánar og ævintýraþránna keyrði einfaldlega um þverbak.
Ég ákvað að heilsa upp á spænskukennarann minn sem tuggði ofan í mig óreglulegar spænskar sagnir forðum daga og fluttist svo af landi brott, aftur til Spánar, þar sem hann bjó áður og býr í dag. Það var ekki einu sinni ætlun mín að taka þátt í spænsku gleðigöngunni sem var farin í Madrid núna í júlí, en það var vissulega upplifun sem ég vildi ekki hafa fyrir nokkurn mun misst af. Það gerðist einhvern veginn svona; ég kláraði kaffibollann, greip bíllyklana, keypti svaladrykk og rauk af stað.
Þannig tók ég þjóðveginn með trompi, tróð kleinuhring í fang barnsins og hækkaði duglega í útvarpinu. Ók eins og óð manneskja allt sem leið lá frá Alicante og beint til höfuðborgarinnar, fullviss um að allt myndi á endanum reddast að íslenskum sið (sem það og gerði) og brunaði beint inn í Gleðigönguna í Madrid. Einbeitt á svip, löðursveitt og svakalega undrandi á hitasvækjunni sem daðraði við fimmtíu stiga markið.
Það fyrsta sem rak fyrir augu mín voru litir regnbogans sem bar við himinn og fánarnir sem fólkið klæddist. Ég man ekki lengur hvað stóð á skiltunum sem þau báru, fallega fólkið sem skipaði gönguna. En ég man að slagorðin voru þróttmikil. Ég man hvað þau voru hnarreist. Seinna heyrði ég að um tvær milljónir manns hefðu tekið þátt í Gleðigöngunni í Madrid nú í ár. Ég þar á meðal og barnungur sonur minn. Sem stóð og gapti, undrandi á svip.
Hvernig útskýri ég annars samkynhneigð fyrir sjö ára gömlu barni sem veit ekki einu sinni hvernig börnin verða til? Hvernig segi ég syni mínum að stundum elski karlmenn aðra karlmenn og að stundum elski konur aðrar konur? Hvers vegna ætti ég ekki að segja barninu frá því að ástin eigi sér óteljandi birtingarmyndir sem allar séu jafn fallegar? Því ætti ég ekki að ræða eðli ástarinnar við barnið mitt? Og af hverju rak drengurinn upp stór augu?
Af hverju eru allir mennirnir í kjólum á götunni, mamma? Af hverju eru allir svona glaðir? – sagði drengurinn og ég svaraði honum og sagði að í dag væri fólk samankomið til að fagna eðli ástarinnar. Ég sagði stráknum mínum, sem gekk við hlið mín og spænskukennarans sem svo indæll var að leggja lykkju á leið sína til að hitta okkur – að stundum þætti fólki einfaldlega nauðsyn að halda skrúðgöngur til heiðurs ástinni. Að um það snerist Gleðigangan, skilyrðislausan réttinn til að elska aðra manneskju. Ég sagði honum að sumir karlmenn kysu frekar að ganga í kjólum og að stundum vildu konur verða menn. Að til væru manneskjur sem hefðu fæðst sem strákar en væru samt stelpur. Að líka væru til stelpur sem hefðu fæðst sem strákar. Að Gleðigangan væri í raun og veru hátíð ástarinnar. Ég fann ekkert betra svar. Ég reyndi mitt besta. En hann er bara sjö ára gamall. Þetta og meira til reyndi ég að útskýra fyrir barninu meðan steikjandi hitinn hvolfdist yfir okkur í miðborg Madrid á hásumri.
Ég sagði barninu líka að stundum yrðu karlmenn sem elska aðra karlmenn fyrir stríðni. Að einhverjum þætti það asnalegt. Ég sagði honum að konur sem elska aðrar konur ættu oft erfitt líka. Að fólk væri stundum vont við þær. Bara fyrir það eitt að elska. Ég sagði honum, meðan litrík skrúðgangan tók að streyma framhjá, að slíkt einelti væri ljótt. Að það væri hræðilegt að gera lítið úr ástinni, sem væri fallegasta og sterkasta afl í heimi. Ég sagði honum að hæfileikinn til að elska aðra manneskju væri eitthvað það fallegasta sem nokkur ætti fullan og óskiptan rétt á. Að enginn hefði rétt á að gera lítið úr ástinni.
Hvernig átti ég með öðrum hætti að gera syni mínum ljóst hvert raunverulegt eðli Gleðigöngunnar er? Hvernig segi ég sjö ára gömlu barni frá því, í steikjandi sumarhita á yfirfullri götu í erlendri stórborg, hvert raunverulegt eðli ástarinnar er? Af hverju hafði ég aldrei rætt eðli ástarinnar og ólíkar birtingarmyndir við hann áður? Hvers vegna taldi ég fram að þeim degi að nóg væri að segja einfaldlega orðin: ÉG ELSKA ÞIG án þess að nein frekari skilgreining lægi að baki þeim orðum? Hélt ég að barnið myndi einn daginn finna sannleikann? Rata veg réttvísinnar? Óstutt og upplýst? Rétt sísvona? Út í bláinn bara? Hélt ég að sonur minn, alinn upp hjá gagnkynhneigðri og miðaldra móður sinni, sæi einfaldlega ljósið einn daginn og myndi rísa upp sem víðsýnn, sjálfala ungur maður?
Því gerði ég mér enga grein fyrir eigin ábyrgð, því svigrúmi sem ég hef til að innræta syni mínum réttlynd gildi fyrr en við rötuðum fyrir hálfgerða hundaheppni inn í miðja Gleðigöngu í funheitri Madrid? Af hverju gerði ég mér enga grein fyrir því að ræði ég ekki eðli ástarinnar við barnið, kemur sá dagur að einhver annar gerir það og Guð einn veit hvernig það samtal endar? Hvernig get ég verndað barnið mitt fyrir innrætingu skaðlegra viðhorfa? Hvaða tryggingu hef ég fyrir því að barninu verði innrætt rétt og eðlileg gildi, taki ég ekki af skarið sjálf áður en of seint er í rassinn gripið?
Hvað ef ég vanræki öll litlu og fallegu samtölin sem ég sannlega þarf að eiga við son minn um eðli ástarinnar það lengi að hann lærir orðin HELVÍTIS HOMMI af fáfróðum einstakling sem setur sig á háan hest frammi fyrir ungum dreng og sannfærir son minn, sem aldrei átti öll litlu og fallegu samtölin um eðli ástarinnar við móður sína, um að einhverra hluta vegna sé ljótt að elska?
Ég ók heim með dýrmæta lexíu þá um kvöldið. Sjóðheit í vöngum eftir mannmergðina í Madrid, djúpt hugsi eftir slitrótt samtalið sem ég átti við son minn þá um daginn í miðri göngunni og þá vitneskju sem hvolfdist yfir mig meðan barnið hvolfdi yfir mig spurningum um eðli ástarinnar, menn í marglitum kjólum og konur sem þrá ekkert heitar en að fá að kyssast í friði.
Ég gerði mér meðal annars grein fyrir því að börnin draga sínar eigin ályktanir, óháð því hvað foreldrarnir hafa fyrir þeim í einhverjum hálfkæringi. Að kylfa ræður kasti. Mér lærðist að ég þarf að gefa syni mínum af mínum eigin tíma. Að ræði ég af einlægni, hlustar drengurinn og að sama skapi verð ég að vera óhrædd við að svara þegar hann ber upp spurningar.
Meðan á dagsferð okkar til Madrid í sumar stóð, lærðist mér að barn sem ekki er upplýst heima fyrir – sækir lærdóminn til annarra barna í umhverfi sínu; fyrst gegnum dagvistun og síðar meir gegnum skóla. Að fordómar leynast víða og að sonur minn hefur að öllum líkindum einhverju sinni fengið að heyra frá jafnöldrum sínum utan heimilis að ekki sé við hæfi fyrir tvo karlmenn að kyssast. Þau börn hafa svo að sama skapi lært af öðrum illa upplýstum einstaklingum að undir ákveðnum kringumstæðum sé rangt að elska.
Ég gerði mér loks ljóst nú í sumar að það fellur eðlilega í minn hlut sem foreldris að leiðrétta mögulegar rangtúlkanir á viðeigandi birtingarmyndum ástarinnar og að ræða raunverulegt eðli kærleika við barnungan son minn, sem forviða á svip spurði hvers vegna karlarnir í göngunni héldust í hendur og brostu til vegfarenda, sem stóðu hjá og horfðu á.
Í Madrid nú í sumar, meðan Gleðigangan streymdi hjá, fann ég til ábyrgðar minnar sem uppalanda – ég skynjaði að það eitt að vera foreldri felur ekki einungis í sér að sinna líkamlegum þörfum barna og búa þeim þak yfir höfuðið – heldur einnig að leiða þeim fyrir sjónir að ástin er eina svarið sem lífið hefur í raun að gefa; að kærleikurinn er svarið við öllum spurningum sem bornar eru upp.
Til innilegrar hamingju með dag ástarinnar, kæru vinir.