Logagylltar skammbyssur, tælandi tilvitnanir í sönglagatexta sjálfrar Beyoncé og stríðnislegar, kolsvartar býflugur eru meðal þeirra tímabundnu húðflúra sem söngdívan setti á markað nú í vikunni í samvinnu við Flash Tattoos, framleiðandans sem stendur að baki glamúrtattoo-límmiðunum sem tröllriðið hafa tískuheiminum í sumar.
Sjúklega elegant, ef svo má að orði komast; smekklegar og tímabundnar líkamsskreytingar sem má líma niður hryggsúluna, hugtök á borð við FLAWLESS og NAUGHTY GIRL – skemmtilega fallegt líkamsskart sem hæfir vel fyrir sérstök tilefni og næturlífið.
Sjálf kaus Beyoncé að kynna samstarfið formlega gegnum CR Fashion Book nú fyrir skömmu – og sat fyrir í einkamyndveri til að sýna hluta úr seríunni, afraksturinn er auðvitað gullfallegur myndaþáttur sem sýnir hvernig Beyoncé sjálf kýs að skarta líkamsskartinu.
Þess má geta að stjarnan leggur sárasjaldan nafn sitt við nokkra hönnun og kemur skýrum stöfum fram á vef CR Fashion Book sem Carrine Roitfeld, fyrrum ritstjóri franska Vogue og núverandi tískuritstjóri Harpers Baazar, á og ritstýrir – að Beyoncé hafi sjálf hannað og útfært línuna sem inniheldur tæplega sextíu gerðir af gullfallegu líkamsskarti, í nánu samstarfi við listrænt teymi Flash Tattoos.
Eins og ætla má af ljósmyndunum sjálfum, er það Beyoncé sem ber skartið á svart-hvítum ljósmyndunum en fyrirsætur Flash Tattoos má sjá hér bera skartið á litmyndum sem fylgja með greininni.
Mynstirn eru gullfalleg, en hver pakki úr Beyoncé línunni inniheldur heilar 57 logagylltar og kolsvartar líkamsskreytingar og kostar 28 dollara ef pantað er beint af vef Flash Tattoos. Á núverandi gengi gera það litlar 3800 ISK krónur (u.þ.b.) en reikna má með að sendingarkostnaður leggist ofan á uppgefið verð, ef pantað er til Íslands.