KVENNABLAÐIÐ

„Besta form lífs þíns á 30 dögum“…?

Ok. Ég viðurkenni að þessi fyrirsögn er „klikk-beita“. Að koma sér „í form“ er vinna, mikil og erfið vinna, en það er eitthvað sem fólk vill helst ekki heyra, það selur ekki að bjóða upp á þjálfun sem tekur meira en kortér og kostar meira en tvöfaldur Latte á tímann. Þess vegna er mikil pressa á þjálfurum að ná skjótum árangri, þetta þarf að gerast hratt, mjög hratt. Svona eins og í sjónvarpinu.

Núna er að renna í garð sá tími ársins sem fólk rankar við sér eftir sumarið og fer að spá í að koma sér „í form“. En hvað er að „koma sér í form“ og af hverju er ég að nota þessar gæsalappir á þetta? Sumir eru með fyrirmynd, kannski er Victoria´s Secret módel eða mynd af Arnold í skjámyndinni á símanum eða tölvunni, meðan aðrir setja sér hóflegri markmið.

screenshot-www.facebook.com 2015-08-05 13-38-54
Þórður Daníel Ólafsson einkaþjálfari

„Núna er ég að byrja að fara út að labba/skokka/hjóla“, „planka í 30 daga og besta form lífs míns er staðreynd“, „ég byrja á nýja sykur-og hveitilausa sítrónu-engifer-kókosolíu-hörfræjakúrnum í næstu viku“ segja þau … þetta er svo einfalt, sjáðu til.

Ef þú ert manneskja sem stundar enga hreyfingu að jafnaði þá er mjög auðvelt að koma sér í betra form. Þó svo að það geti vissulega verið átak að koma sér af stað, þá er reyndin sú að fyrstu skrefin eru alltaf þau auðveldustu, hvað árangur varðar. Ég mundi ganga svo langt að segja að þú getur gert nánast hvað sem er fyrstu mánuðina og komist í „betra“ form, þegar þú byrjar á algjörum núllpunkti. Svo gerist það.

screenshot-www.facebook.com 2015-08-05 13-38-05
Þórður Daníel einkaþjálfari við æfingar

Árangurinn fer að láta á sér standa. Sumir gefast upp meðan aðrir þrjóskast við um sinn. Hvatningin sem kom í kjölfar árangursins fyrstu mánuðina dvínar og þú færð ógeð á smoothie-inum sem var svo sjúklega góður fyrir 3 mánuðum. Jafnvel Esjuferðirnar með tilheyrandi selfie við steininn fara að virðast tilgangslausar.

En þeir sem ég virkilega hef samúð með eru þeir sem allan ársins hring djöflast áfram í sama farinu án þess að ná árangri.

Líkamsrækt er margþætt og umdeilt fyrirbrigði, alveg eins og mataræði, og getur verið einstaklingsbundið hvað hentar hverjum og einum. Sannleikurinn er sá að ef það væri einfalt, auðvelt og fljótlegt að koma sér í „besta form lífs síns“ þá væru allir í toppformi … er það ekki?

Á næstu vikum er planið að varpa örlitlu ljósi á starf þjálfarans (ásamt örugglega alls konar útúrdúrum). Stay tuned … !

Þórður Ólafsson – Einkaþjálfun

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!