Hátt yfir fjögur þúsund konur hafa lagt hönd á plóg til að styðja við skúlptúrverk breska listamannsins Jamie McCartney og útkoman er dásamleg; Voldugi Píkuveggurinn eins og nafnið má útleggja á íslensku – eða einfaldlega Great Wall of Vagina eins og verkið heitir á frummálinu hefur vakið heimsathygli og það ekki að ósekju.
Um er að ræða gerðarlegan skúlptúr sem sýnir raunverulegar plastafsteypur af kynfærum kvenna sem sett var upp á listasafni í París fyrir fáeinum dögum, en háfemínísku listaverkinu er ætlað að binda endi á skömm og neikvæð viðhorf kvenna gagnvart lögun eigin kynfæra. Þessu greinir breski vefurinn The Independent frá.
McCartney segir píkuna sjálfa vera skotspón neikvæðrar gagnrýni og að fyrirtæki víða um heim hafi hagnast ósegjanlega mikið á að skammgera lögun píkunnar í þeim eina tilgangi að græða peninga á konum; vammlausum konum sem trúa því í einlægni að þær þurfi á skurðaðgerð að halda til að „lagfæra”lögun kynfæra sinna.
Ég er á þeirri skoðun að fegrunaraðgerðir á skapabörmum séu með öllu óþarfar. Vandinn er af sálrænum toga og stafar af þeim þrýstingi sem fegrunarbransinn beitir konur. Sá iðnaður sem blómstrar mest í kringum fegrunaraðgerðir beitir sér fyrir því að sannfæra konur um að píkan á þeim sé gölluð og að skurðaðgerð sé eina svarið.
Þá segist listamaðurinn einnig taka nær daglega á móti bréfum frá konum sem sumar vilji leggja verkefninu lið, meðan aðrar konur hafi einfaldlega skrifað honum til að þakka honum fyrir að hafa þorað að skapa píkuskúlptúrinn. Verkið hafi hjálpað þeim sömu til að yfirstíga minnimáttarkennd og sættast við eigin líkamsvöxt; sérstaklega ytri lögun píkunnar.
Að sögn listamannsins hyggur hann á að taka afsteypur af einni píku frá hverju einasta ríki heims og gera þannig úr skúlptúr og að draumurinn sé einnig að gera aðra seríu með bandarískum píkuafsteypum. Þá vonast hann einnig til að finna konur með sérstæðar píkur; konur sem hafa undirgengist umskurð sem afmyndar kynfærin – svo honum verði gert kleift að sýna allar gerðir af píkum, heilbrigðum sem afmynduðum.
Einlæg von McCartney er að verkefni hans muni hjálpa konum á öllum aldri til að sættast við eigin líkamslögum og segir þannig:
Hver einasta kynslóð upplifir sambærilegar þjáningar og efa; stúlkur og konur á öllum aldri hugsa allar einhverju sinni – Guð minn góður, hvað er eiginlega að líkamanum á mér?
Fræðast má meira um verkefnið á vefsíðu listamannsins, en HÉR má lesa frétt The Independent og viðtalið við sjálfan listamanninn.