Mark Zuckerberg og eiginkona hans, Pricilla Chan eiga von á sínu fyrsta barni. Þetta tilkynnti stofnandi Facebook á sinni eigin notendasíðu nú fyrir stundu en segir jafnframt að þau hjónin hafi þrisvar mátt þola fósturmissi á undanförnum árum – en hafi kosið að tala ekki opinberlega um endurtekin áföll fyrr en núna og það á eigin forsendum.
Þá kemur Mark einnig inn á það lán sem þau hjónin hafa átt að fagna, Pricilla sem læknir og fyrirlesari en hann sem frumkvöðull og stofnandi Facebook, en ítrekar um leið að þrátt fyrir að þau hafi bæði notið persónulegrar velgengni, hafi sársauki sökum endurtekinna fósturláta sett mark sitt á heimilislífið undanfarin ár.
Þær fréttir að þú eigir von á barni, fylgir svo mikil von. Ímyndunaraflið fer strax af stað; hvernig persóna barnið verði, hvaða stefnu framtíð barnsins taki og um leið fyllist þú metnaði fyrir hönd ófædda barnsins. Fósturlát er einmanaleg reynsla; fæstir ræða fósturlát því þeir sömu vilja ekki vera öðrum byrði – mörgum finnst þeir gallaðir og að þeir hafi sjálfir gert eitthvað sem olli fósturlátinu. Þess vegna greinir fólk ekki frá áfallinu.
Þá segir Mark að þeim hjónum hafi ekki orðið ljóst hversu algengt er að upplifa skömm og sjálfsásökun fyrr en þau tóku að bera bækur sínar saman við vinafólk – pör og einstaklinga sem urðu fyrir ítrekuðum fósturmissi en eignuðust nær öll heilbrigð börn að lokum.
Við getum einungis vonað að með því að deila af persónulegri reynslu okkar, muni fleiri einstaklingum skiljast að sorgin sem fylgir í kjölfar missis er eðlileg, að vonin sem við upplifðum muni verða öðrum hvatning og að fleri muni stíga fram og deila reynslu sinni.
Þá segir Mark einnig að lokum að meðgangan hafi gengið það vel og að Pricilla sé komin það langt á leið að þeim sé loks óhætt að greina frá því hvernig er í pottinn búið, að heimilishundurinn hafi enga hugmynd um hvað hann á í vændum en að Mark sé sannfærður um að litla stúlkan muni líkjast föður sínum í hvítvetna.
Við fórum í sónar fyrir skömmu síðan og mér til mikillar ánægju gaf barnið mér þumalinn – hún „lækaði” pabba sinn í móðurkviði. Svo ég er alveg viss um að litla dóttir okkar eigi eftir að líkjast mér!
Hér má lesa stöðuuppfærslu Mark í heild sinni.