Við krúttuðum yfir okkur yfir þessum litlu sætu brómberjakossum. Þeir eru svo fallegir og það er einfalt að búa þá til. Þá má snæða án samviskubits ef hollustan er ykkur ofarlega í huga. Þetta er gæðakonfekt stútfullt af næringu fyrir kroppinn.
Þessi uppskrift er nóg í 16 BRÓMBERJAKOSSA
Fylling
1 bolli kasjú hnetur hráar sem eru búnar að liggja í bleyti í klukkustund.
5 matskeiðar sítrónusafi
1 matskeið sítrónubörkur rifinn
5 matskeiðar vatn + 1 matskeið vatn
6 dropar stevia eða 2 teskeiðar agave
Skeljarnar:
1 bolli möndlur sem hafa legið í bleyti yfir nótt
1 1/4 bolli steinlausar döðlur
1 matskeið vatn ef þörf krefur við að blanda öllu saman
Skraut:
Fersk brómber og myntulauf
Aðferð:
Takið allt sem á að vera í fyllingunni að undanskilinni 1 matskeið af vatni og setjið í matvinnsluvél og púlsið þar til að allt hefur blandast vel saman og er mjúkt og köglalaust. Setjið í skál, kælið og þvoið matvinnsluvélina.
Setjið möndlurnar og döðlurnar í matvinnsluvélina og blandið saman. Bætið við 1 teskeið af vatni ef þurfa þykir þar til allt hefur samlagast í klístrað deig. Takið smávegis af deiginu og myndið kúlu á milli handanna og þrýstið henni í smæstu gerð af múffuformum úr járni eða siliconi.
Notið sleifarenda til að þrýsta deiginu til hliða formsins. Farið eins að með restina af deiginu. Takið skeljarnar úr formunum og kælið.
Rétt áður en bera á fram er fyllingunni skellt í forminn. Gott er að nota rjómasprautu eða litla teskeið.
Skreytið með brómberjum og myntulaufum. Svo má líka nota önnur ber ef vill …