KVENNABLAÐIÐ

Hvert andartak geymir 3000 möguleika

Það getur verið erfitt að njóta augnabliksins raunverulega, og mörg okkar vita í raun ekki hvað það þýðir. Við lærum að slökkva á heiminum og einbeita okkur að önduninni, gera æfingar sem slíkar að fastri venju einu sinni á dag og þar fram eftir götunum.

En slíkt gerir ekki mikið fyrir okkur í raun annað en við lærum hugleiðslu og verðum góð í því.

Til að læra að njóta hvers augnabliks í lífinu, verðum við fyrst og fremst að hætta að bíða og byrja að lifa.

Einhverra hluta vegna heldur mannskepnan að hamingjan og lífið komi með hinu og þessu. Það er misjafnt eftir fólki hvað það  er.

Sjálf  er ég ekki ókunnug biðinni og vorum við bestu vinkonur svo árum skipti. Ég setti hamingju mína í biðstöðu þar til ég væri komin með betri íbúð, minna af skuldum, meira af peningum, fleiri tæki, fleiri tól, að ég yrði „uppgötvuð“, að börnin yrðu svona eða hinsegin eða gerðu þetta eða hitt. Beið eftir að makinn yrði öðruvísi. Að ég yrði mjó, að ég yrði heilbrigð. Beið eftir vori, sumri, hausti, vetri og jólum. Allan ársins hring, ár eftir ár var bið eftir einhverju. Allt yrði betra ef…ef…ef…

Á meðan ég beið eftir hinu og þessu, liðu 10, 20, 30 ár án þess að ég tæki eftir því eða bara hreinlega væri með. Lífið sjálft flaut framhjá mér á skútu án þess að ég væri um borð.

Allt í einu var ég komin á fimmtugsaldur og ekkert var eins og áður. Breytingarnar læddust að mér án þess að ég tæki eftir því, því ég var of upptekin við að spjalla við vinkonu mína Biðina.

Árin liðu eins og hendi væri veifað og í sömu andránni er allt við það sama og ekkert er eins.

Allan þennan tíma sem maður eyðir í bið, býr maður við eirðarleysi og gremju. Ekki hamingju. Þegar maður er sífellt að bíða eftir einhverju betra, gleymist að vera þakklátur fyrir það sem maður hefur nú þegar. Þakklæti er eitthvað ofan á brauð og það eru bara börn á jólum sem eiga að stunda það.

En lausnina á þessu vandamáli, biðinni, er einmitt að finna í þakklæti.

Það er gott og gilt að læra að njóta augnabliksins með því að hugleiða og einbeita sér að öndun, en þegar maður bætir við þakklæti og eyðir þessum mínútum í að leyfa því að flæða um líkamann, er allt annað upp á teningnum.

Það er nefnilega ekki nóg að fjarlægja eina tilfinningu án þess að eitthvað komi í staðinn. Þakklætis tilfinningin verður að koma í stað bið-eftir-betra. Annars fellur allt í sama farið aftur.

Það getur verið snúið að rembast við að vera þakklátur þegar maður er ekki hamingjusamur. En þetta er æfing eins og svo margt annað og til að byrja með á maður kannski erfitt að finna eitthvað til að vera þakklátur fyrir.

En það er hægt að vera þakklátur fyrir allskonar hluti sem þér hefur ekki dottið til hugar að vera þakklát/ur fyrir.

Prófaðu að útbúa lista, það er eitthvað sem ég sjálf er mikill aðdáandi að. Listi sem þú ferð yfir á hverjum degi og setur smá tilfinningu í hvert atriði.

Trúðu mér, á hverjum degi, munt þú finna eitthvað nýtt til að vera þakklát/ur fyrir og setja á listann og tilfinningin verður sterkari og þú finnur fyrir henni lengur enn sem æfingunni nemur.

Í búddisma er talað um að í hverju andartaki leynist 3000 möguleikar. Og það er nokkuð sem er þakkarvert. Að eiga möguleikann á því að breyta, bæta og hugsa út fyrir þinn eigin kassa.

Og þar sem hvert andartak hefur 3000 möguleika, ekki bíða þangað til á morgun að byrja þakklætisæfingarnar, þegar þú hefur öll þessi ómetanlegu andartök í dag!

Þetta einstaka andartak er fyrsta andartakið af restinni af lífi þínu!

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!