Mitt í botnlausum pytti sjálfshaturs, útlitsdýrkunar, jákvæðra staðhæfinga og hvatningarorða; sykursætra sönglagatexta sem allir á einhvern hátt eru óður til kvenna sem ekki sjá eigin fegurð … standa örfáir einstaklingar upp úr.
Sjálfstæðar konur sem fullvissar um eigið ágæti, þurfa ekki á slíkum hvatningarorðum að halda. Konur sem elska hverja bugðu og dæld á eigin líkama, taka skammlaust sjálfsmyndir og deila á samskiptamiðlum. Hláturmildar, sterkar og ákveðnar konur sem samfélagið bendir gjarna fingri á og fer með orðin:
Þvílík tík … hver heldur hún eiginlega að hún sé?
Hvað er svona rangt við það að líða vel í eigin skinni? Hvers vegna þykir eðlilegra að kona sæki staðfestingu á eigin ágæti út fyrir eigin þægindahring? Hvers vegna þykir samfélaginu eðlilegra að áætla að konur séu óöruggar, hræddar við dómhörku annarra, samanburð við aðrar konur – sannfærðar um að þær séu ljótar?
Hún er svo uppfull af hégóma … gengur um eins og hún eigi staðinn.
Getur verið, gott fólk, að konur eltist oft við viðurkenningu umhverfisins þar sem ekki þykir við hæfi að líða vel í eigin skinni, vera fullviss um eigið ágæti – vera sannfærð um að það eitt að vera kona sé nóg? Getur verið að meinið liggi dýpra en svo að um samanburðaráráttu sé að ræða; getur verið að viðtekin gildi og viðhorf gangi hreinlega út á að halda konum í skefjum með hóli og hvatningarorðum sem gera út á að draga úr sjálfstrausti þeirra?