Ég fór að gráta í gærkvöldi. Útötuð í súkkulaðiís, svitastorkin og fáklædd á spænsku kirkjutorgi. Auðvitað ætlaði ég mér ekkert að gráta, þar sem ég sat á kirkjutröppum, íklædd sandölum og það við hliðina á sjö ára gömlum syni mínum og fylgdist með gullfallegri serimóníu fyrir utan kirkju Heilags Nikulásar í Santa Cruz hverfinu í Alicante.
Þær voru bara svo fallegar, þær spænsku. Íklæddar sólgulum kjólum og svífandi léttum, kóralrauðum samfestingum með flegið bak og gylltar keðjur um mjaðmirnar. Trítlandi tindilfættar um torgið í svimandi háum pinnahælum meðan spænskir herramenn fylgdu þeim eftir hvert fótmál, íklæddir klæðskerasniðnum jakkafötum og óaðfinnanlega klipptir. Angan af dýru ilmvatni fyllti loftið og ómur af lágstemmdum röddum sem mæltu á framandi tungu bárust eyrum okkar Galdurs, sem sátum opinmynnt og fylgdumst með siðvenjum Alicante-búa og tróðum í okkur hverri skeiðinni af fætur annarri. Ísinn er alveg syndsamlega góður á Spáni.
Fyrst gapti ég bara. Gerði mér litla grein fyrir því hvers kyns hátíðarathöfn átti sér stað á gamla kirkjutorginu í elsta hluta Alicante; þeim hluta borgarinnar þar sem sárafáir ferðamenn voga sér inn fyrir. Við erum búsett í elsta hverfinu, þar sem heimamenn hreiðra enn um sig í kvöldsvalanum með vatnsbrúsa og ræða á framandi tungu sem ég er alveg ólm í að læra.
Santa Cruz er eins og örsmátt þorp inni í borginni, aðskilið frá borgarasanum og vandlega grafið inn í bratta fjallshlíð. Lúrir uppi við kastala Heilagrar Barböru og virðist eins konar minnisvarði um liðna tíð, ósnortinn Spán þar sem heimamenn byggðu sér fábrotin híbýli hér áður fyrr og lögðu göngustíga. Hér hvíslar hver steinn löngu liðinni sögu óhaminna ástríðna og steini lagðar göturnar eru svo þröngar að bílaumferð er nær ómöguleg.
Það var einhvers staðar þarna; í miðri mannþrönginni sem ég fór að gráta, útötuð í súkkulaðiís og löðursveitt í rakanum. Íklædd suðrænum sandölum og opinmynnt þar sem ég starði á kirkjudyrnar og beið þess í ofvæni að út gengju brúðhjónin, sem voru bókstaflega grýtt niður af æstum kirkjugestum sem köstuðu af alefli hrísgrjónum í átt að dyrunum sem loks luktust upp. Ég var áhyggjufull um stund, en svo áttaði ég mig. Tilfinningahitinn bar kirkjugesti einfaldlega ofurliði. Þess vegna voru spænsku brúðhjónin nær grýtt i götuna. Af gleði einni saman.
Þetta er í fyrsta sinn sem ég hef séð brúðguma grúfa sig yfir nýbakaða eiginkonu sína í þeirri veiku von að verja gullfallega stúlku í drifhvítum kjól fyrir ægiregni ósoðinna hrísgrjóna sem æstir og öskrandi Spánverjar köstuðu af alefli beint í fagurleit andlit hinna nýbökuðu hjóna. Allt átti þetta sér stað af óhaminni gleði meðan fjölskyldur beggja dönsuðu striðsdans af taumlausri hamingju.
Þar sem ég sat opinmynnt með súkkulaðiísinn sem lak niður klístraða fingur mína reyndi ég af veikum mætti að brosa af einskærri gleði og svo báru tilfinningarnar, Miðjarðarhafs-hitinn og ómurinn af framandi röddum fólksins sem grýtti hrísgrjónum af alefli í hin nýbökuðu hjón, mig einfaldlega ofurliði.
Ég brast í grát. Táraðist, gretti mig og snökti. Það er rétt, ég grét. Bláókunnug, íslensk konan sem sat þarna með súkkulaðiísinn. Söltum hamingjutárum fyrir hönd hrísgrjónafólksins, útklínd í súkkulaðiís, kirfilega staðsett á ævafornum kirkjutröppum við hliðina á sjö ára gömlum syni mínum sem að öllum líkindum eyðilagði hvíta stuttermabolinn sinn í kvöld af eintómri græðgi.
Ég grét í gærkvöldi, gott fólk. Af hamingju, tilfinningahita og svo þeirri staðreynd að mér er gersamlega ómögulegt að halda í virðinguna þegar brúðkaup eru annars vegar. Af hverju ég græt alltaf í brúðkaupum er mér algerlega fyrirmunað að skilja. Það er bara eitthvað við eðli ástarinnar sem laðar fram tár. Sjálf hef ég aldrei gift mig og veit ekki hvernig færi fyrir mér ef ég gengi sjálf út kirkjugólfið. Hvort ég yrði að þiggja aðstoð kirkjugesta, niðurbrotin af gleði – með þvældan brúðarvönd í höndum.
En ég grét í gærkvöldi. Allt í nafni ástarinnar, spænska ástríðuhitans og svo vegna þeirrar staðreyndar að ég brotna iðulega niður í brúðkaupum.