Myndbandið sem sjá má hér að neðan hefur gengið ljósum logum á Facebook undanfarna daga, en stúlkan sem hér segir frá heitir Emma Murphy og 26 ára gömul. Emma er búsett í Dyflinni, Írlandi og greinir í einlægni og af mikilli geðshræringu frá ofbeldi því sem hún hefur mátt þola af hendi sambýlismanns síns og barnsföður, sem starfar sem einkaþjálfari og olli áverkum þeim sem sjá má á andliti Emmu.
Í myndbandinu greinir Emma frá því að talsverðan tíma hafi tekið hana að gera upp við sig hvort hún ætti að deila myndbandinu eða ekki, en að hún hafi tekið þá ákvörðun að setja myndbandið á Facebook með velferð tveggja barna þeirra og einnig til þess að vekja athygli á stöðu annarra kvenna í sambærilegri stöðu og hún var sjálf.
Forsögu málsins má rekja til ástarsambands þeirra Emmu og barnsföður hennar sem stóð yfir í þrjú og hálft ár, en Emma segir hann hafa verið stóru ástina í lífi hennar. Þegar Emma komst að því að unnusti hennar hafði haldið framhjá henni með skjólstæðing sínum hrundi líf hennar saman, en upp um allt komst þegar hjákonan hafði samband við Emmu til að greina henni frá því að hún væri ólétt. Emma, sem sjálf var ólétt á þessum tíma, brást skelfilega við fregnunum og fékk snemmbærar hríðir.
Emma ákvað engu að síður að gefa unnusta sínum annað tækifæri og lagði sig fram við að bjarga sambandinu og að halda fjölskyldunni saman. Sl. föstudag komst þó Emma að því að hann hafði haldið framhjá henni aftur með annarri konu. Þegar Emma lagði spilin á borðið og sagðist vita hvers kyns væri, veitti hann henni vænt hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum sem sjá má í myndbandinu. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem unnusti Emmu hafði lagt á hana hendur, en áður hafði Emma höfuðkúpubrotnað í átökum þeirra og skýring mannsins var ávallt sú sama; það væri óöryggi hennar sjálfrar og sjúkleg tortryggni sem hefði knúið hann áfram til líkamlegs ofbeldis.
Myndbandið sjálft er tekið upp á heimili móður Emmu, en þangað flúði hún eftir síðustu árásina og fann loks nægan innri styrk til að deila sögu sinni í þeirri von að aðrar konur í sambærilegri stöðu gætu skilið að ofbeldi er aldrei á ábyrgð þolanda og að það er til lausn á öllum vanda; útleiðin er til og hún er öllum konum fær.
Enginn maður hefur nokkurn rétt á því að leggja hendur á konu. Meira að segja einu sinni er of mikið. Að nokkur maður skuli knýja konu til að trúa því að ofbeldi undir einhverjum kringumstæðum sé réttlætanlegt er hræðilegt. Að þurfa að þola andlegt ofbeldi af grófustu gerð og að fá að heyra að allt sé ímyndun og að vanlíðanin eigi sér rætur að rekja til ímyndunarveiki sjálfrar konunnar … enginn karlmaður ætti nokkru sinni að gera konu það.