KVENNABLAÐIÐ

S K Y ND I K Y N N I: Sex megingerðir KYNLÍFSÆVINTÝRA einhleypra

Kynlíf sem felur í sér gagnkvæma virðingu og umhyggju getur verið dásamlegt, æði dularfullt og er oftlega freisting sem erfitt ef ekki ógerlegt er að standast. Engum blöðum er um það að fletta að kynlíf elskenda er besta gerð kynlífs, því nándin og traustið getur gert kraftaverk fyrir rúmbylturnar.

Einhverjir halda jafnvel að einhleypir lifi æsispennandi kynlífi sem einkennist af glæstum stefnumótum, ógurlega flaðurkenndu daðri á skemmtistöðum um helgar og forboðnu hópkynífi sem á sér einungis stoðir í amerískum bíómyndum. Aðrir eru sannfærðir um að einhleypir lifi engu kynlífi. Aldrei. Borði bara popp og sötri kók heima meðan tárin renna af einskærum einmanaleika.

Sannleikurinn er þó sá að kynlíf einhleypra getur líka verið skemmtilegt, klaufalegt, vandræðalegt og stundum hreinlega litað vonbrigðum. Kynlíf einhleypra er af ýmsum toga, rétt eins og kynlíf giftra og lofaðra. Kynlíf sem byggir á gagnkvæmu samþykki og löngun til líkamlegrar nándar getur verið alla vega, út og suður og hreint út sagt svo margbreytilegt að engin leið er að spá fyrir um útkomuna fyrr en á hólminn er komið. Hér fara nokkrar megingerðir kynlífs einhleypra sem flestir kannast að öllum líkindum við:

1. Klaufalegt kelerí í lok fyrsta stefnumóts:

Fyrsta skiptið er alltaf pínu brösótt. Að ekki sé talað um þegar ekki ríkir mikil nánd, jafnvel bröltir parið saman í rúmið í lok fyrsta (eða annars) stefnumóts og einhvern veginn fer allt úrskeiðis. Þú gerir þér ágæta grein fyrir því að vandræðalegt fálmið og brösóttar rúmbylturnar eru ekki besta kynlífið sem þú hefur upplifað um ævina, en ákveður að segja ekki orð af tillitsemi við félagann. Stefnumótið var skemmtilegt, félaginn er viðkunnalegur í alla staði en þrátt fyrir allt vantar einfaldlega bara neistann. Einfalt og laggott.

2. Daðurkennd fálm undir áhrifum áfengis:

Þú ert í þínu fínasta pússi, ferð út á lífið og með hverju glasinu aukast líkurnar á glæstu kynlífsævintýri það kvöldið til mikilla muna. Drukkið fólk verður seint talið til glæstari elskhuga og ástkvenna þessa heims, en áfengi losar hins vegar um ákveðnar hömlur og þó getan þverri með hverju glasinu getur löngunin að sama skapi rokið upp úr öllu veldi. Daðurkennt fálm, drukkinn losti og einmanakennt uml … allt getur þetta endað á einn og sama veginn. Stundum er um gamlan vin eða vinkonu að ræða og í einhver skiptin er það ókunnug manneskja. Kannski ekki allra besta uppástungan en ef öryggið er sett á oddinn og gagnkvæm virðing ríkir í allri nálgun, er ekkert við leikinn að athuga.

3. Þráhyggjukossinn sem snýst upp í einfalt kynlíf og ekkert meira …

Það var þetta með fasta bólfélagann. Leikfélagann sem á bara að vera kynlífsfélagi. Þið hafið afklætt ykkur saman í fáein skipti og innst inni vonast þú jafnvel til að eitthvað meira verði úr. En þetta er bara kynlíf og ristir ekki dýpra en svo. Þú ert fullorðin manneskja og segist vel geta höndlað skuldbindingalausa nánd. En þegar nóttin er á enda, langar þig í annan koss og örlítið meiri nánd. Smá kúr. Eitthvað bara. En þegar kynlífið er yfirstaðið er kveðjustundin enda runnin upp. Þú lætur sem þú hafir engar tilfinningar, en innst inni veistu að þig þyrstir í meira.

4. Kynlíf með kærum vini …

Kannski hafist þið þekkst lengi og lostinn lúrt undir yfirborðinu. Létt daður og hrósyrði en einhvern veginn hefur hvorugt nokkru sinni stigið alla leið. Kannski hafið þið aldrei rætt möguleikann á því að sofa saman eða annað hvort ykkar jafnvel aldrei leitt hugann að því að ganga svo langt. Svo gerist það bara einn daginn. Óvart. Nándin og vináttan gerir kynlífið léttara, frjálslegra og fallegra í eðli sínu og það gerir svo reynsluna miklu eftirsóknarverðari. Auðvitað getur kynlífið sett vináttuna úr skorðum, en það eru líka ágætar líkur á því að eitthvað annað og meira verði úr. Þriðji möguleikinn er sá að um stórkostlegt kynlíf sem leiðir ekkert meira af sér, sé að ræða. Það er allt í lagi líka.

5. Kynlífið sem gerðist óvart?

Stundum gerist það bara. Allt í einu. Óvart. Án þess að þú hafir einu sinni verið að velta því fyrir þér. Kannski var það glossið eða nýja ilmvatnið eða bara hormónar í loftinu og hverjum er ekki sama? Nándin var skemmtileg og ljúf og bæði hlógu og allt var óvart og gott. Stundum geta slys sem þessi verið ánægjuleg, upplífgandi og gefandi. Því ætti maður að neita sér um allt það fagra í lífinu?

6. Forboðna kynlífið sem hvorugt ætti að taka þátt í:

Alltaf skal það vera þessi eina manneskja. Sem þú þráir á laun og gjóar augunum til þín þegar enginn sér. Kannski er um fyrrverandi maka vinkonu að ræða, gamlan kærasta eða jafnvel lofaðan einstakling. Stundum er viðkomandi einhver sem þú hefur sofið hjá áður, eða einhver sem þú ættir alls ekki að sofa hjá en langar samt óendanlega til að hátta með. Þið vitið bæði fullvel að hugmyndin er allt annað en góð, því leikurinn getur ekki endað á aðra vegu en með vonbrigðum. Samt endið þið saman í rúminu; dragist að hvoru öðru eins og segull að stáli og að hluta er það forboðna orkan sem gerir leikinn því meira spennandi. Eftir á að hyggja veit hvorugt ykkar hvort best er að iðrast eða ekki. Þó ekkert af framangreindu hafi nokkru sinni átt að gerast, er ekki þar með sagt að bannað sé að varðveita minninguna.

/ Elite Daily

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!