Rihanna fylgist grannt með á Instagram og betur en ætla mætti. Reyndar eru vegir Rihönnu með öllu órannsakanlegir ef marka má nýjasta útspil hennar. Þannig handvaldi stjarnan áður óþekkta stúlku til að leika glæpakvendi í myndbandinu Bitch Better Have My Money gegnum samskiptamiðilinn og segir stúlkan, sem heitir Sanam, í viðtali við tímaritið VICE að einföld sjálfsmynd á Instagram hafi landað henni þáttöku í umdeildasta myndbandi ársins og kollvarpað lífi hennar í einni andrá.
Ævintýralegur spuni Sanam og Rihönnu sem endaði með útgáfu Bitch Better Have My Money hófst fyrir þremur mánuðum síðan þegar Rihanna rak augun í þessa ljósmynd af Sanam á Explorer síðu Instagram:
Rihanna smellti á FYLGJA og Sanam fékk í stuttu máli vægt taugaáfall af einskærri gleði.
Ég starði bara á símann. Þegar ég uppfærði síðuna hafði Rihanna afturkallað tilkynninguna og ég varð svo ótrúlega leið og hrygg. Tveimur vikur seinna smellti hún hins vegar aftur á FYLGJA. Daginn eftir var ég nýkomin í vinnuna þegar hún sendi mér einkaskilaboð á Instagram. Hún kom sér beint að efninu og sagði einfaldlega: „Hæ, ég er með smá hugmynd sem mig langar að leggja fyrir þig. Mér finnst þú bara svo fokking sjaldgæf og flott. Láttu mig vita ef þú hefur áhuga.”
Sanam lét ekki standa á svari, en hún er að eigin sögn óskaplega „venjuleg” manneskja og starfar í gróðurverslun að öllu jöfnu. Framleiðslufyrirtæki Rihönnu hafði í framhaldinu samband við Sanam og þannig eyddi hún lunganum úr vinnudeginum í samningaviðræður við teymi stjörnunnar.
Þegar dagur var að kvöldi kominn fékk ég loks skilaboð frá þeim sem sögðu einfaldlega: „Við erum búin að komast að niðurstöðu, Rih vill fá þig í myndbandið og við viljum biðja þig að fljúga til okkar á morgun.” Ég var komin upp í flugvél daginn eftir. Hún byrjaði að fylgja mér á Instagram á miðvikudagskvöldi og á föstudagsmorgni var ég komin með flugi til Los Angeles. Þetta var hrein klikkun.
Sanam sparar ekki stóru orðin í viðtalinu og segir Rihönnu vera enn dásamlegri en hún þorði að vona:
Hún er svo ljúf! Hún jós gullhömrum yfir okkur og hún er svo ótrúlega blátt áfram og jarðbundin. Þetta er kannski það hallærislegasta sem hægt er að segja um frægan einstakling, en hún er það bara!
Sanam er þó ekki bara einfaldur starfskraftur í gróðurverslun, því hún er listakona sjálf og gerir verk sem „taka á samfélagslegum vandamálum” að eigin sögn. Sanam segist vona að ævintýraspuni þeirra Rihönnu muni hjálpa henni að vekja athygli á eigin verkum:
Það er erfitt að vera kona í listaheiminum. Sérstaklega kona af blönduðum kynþætti. Það er einfaldlega erfiðara fyrir konur af dekkri litarhætti að öðlast sömu viðurkenningu í listaheiminum. Tilfinningin ein getur verið yfirþyrmandi erfið. En bara það eitt að leika í myndbandinu opnaði dyr fyrir mér og hefur gefið mér tækifæri til að vekja athygli á málefnum sem skipta mig miklu.