Druslugangan verður haldin í fimmta sinn á höfuðborgarsvæðinu þann 25. júlí næstkomandi og hefst gangan kl. 14.00, en Druslugangan, sem á uppruna sinn að rekja til Bandaríkjanna hefur skotið rótum í íslensku samfélagi og er tilgangurinn sá að færa skömmina til síns heima.
Þegar hefur verið stofnað til viðburðarsíðu á Facebook þar sem fylgjast má grannt með framvindu mála og hafa tæplega 3000 manns þegar boðað komu sína, en einungis fjórir sólarhringar eru síðan viðburðasíðan fór í loftið.
Formleg dagskrá Druslugöngunnar verður kynnt á næstu dögum, en á Facebook síðu viðburðarins kemur meðal annars fram að tilgangurinn sé að hvetja samfélagið til að rísa upp gegn kynferðisofbeldi og standa upp fyrir þolendum – gegn gerendum.
Mynd: Druslugangan á Facebook
Þá segir einnig á viðburðarsíðunni að Druslugangan sendi skýr skilaboð; að leggja höfuðáherslu á að færa ábyrgð kynferðisglæpa frá þolendum og yfir á gerendur, en að úrelt viðhorf geri konur sem hafa orðið fyrir barðinu á kynferðisglæpum, ábyrgar fyrir ofbeldinu vegna vali á klæðnaði, með eigin hegðun eða fasi. Slíkt sé fásinna þar sem engin afsökun geti nokkru sinni réttlæt þann glæp sem nauðgun er.
Mynd: Druslugangan á Facebook
Gangan í ár verður farin frá Hallgrímskirkju og hefst kl. 14 sem hér stendur að ofan, en gengið verður niður Skólavörðustíg, Bankastræti og endar gangan á Austurvelli þar sem við taka fundarhöld og tónleikar.
Tökum #þöggun #freethenipple #konurtala #Drusluganga #6dagsleikinn á næsta level og búum til stærstu Druslugönguna hingað til. Við lofum góðu veðri enda hefur alltaf verið brakandi sól á Druslugöngunni!!