KVENNABLAÐIÐ

RITSTJÓRASPJALL: Dísæt kveðja frá sólbökuðum strætum Spánar!

Það er enginn hægðarleikur að setjast í stól ritstjóra á sólarströnd. Í bókstaflegri merkingu þeirra orða. Að feta forvitin á svip, fyrstu skrefin í nýju starfi og að læra að þekkja lesendahóp sem hefur skemmtilega mótaðar skoðanir á hvaða umfjöllunarefni gera vefmiðil þægilegan og uppbyggilegan aflestrar.

(Forsíðumyndin er tekin á selfie-stöng. Við erum í sumarfríi og alvara lífsins varð eftir heima.)

Örlítið merkilegt að líta yfir farinn veg og teygja vatn á sólríkum svölum, hlusta á hlátrasköll spænskra barna og láta berast um leið á huglægum öldum rammíslenskra orða, þakklát því að fá að líta annan dag augum. Það eru forréttindi að mega gleðjast yfir hverri þeirri athugasemd og ábendingu sem berst frá lesendum í formi innleggja við birtar greinar, því það eru lesendur sem blása lífi í vefinn. Án lesenda væru orðin gjálfur út í tómið og boðskapurinn færi ofan og neðan garðs.

Það er gaman að öðlast það fágæta tækifæri að mega taka höndum saman við hæfileikaríkar og heilsteypar konur sem þekkja litbrigði lífsins og beita sér fyrir kærleika í daglegum störfum. Þetta mun í fyrsta sinn sem mér hefur hlotnast sú gæfa að stýra vefmiðli  og aldrei hef ég áður skynjað af fullri einlægni hversu stolt og hreykin ég er af því að vera dóttir móður minnar. Hversu mikill heiður mér þykir að því að vera kennd við foreldra mína og hvað þá að geta eignað þeim hlutdeild í persónulegum árangri mínum á miðjum aldri.

Staða ritstjóra er ábyrgðarhlutverk sem ekki ætti eingöngu að snúast um hlátrasköll á kaffihúsum borgarinnar, gloss á vör og háværa hælasmelli á skrifstofutíma. Að sama skapi má ekki drepa svo húmorinn niður að varla megi heyra saumnál detta. Það er leyfilegt að hlæja í vinnunni og stundum, gott fólk, heyrast hlátrasköllin alla leið gegnum orðin, yfir hafið og heim til þeirra sem umfjallanirnar lesa. Gleðin er alveg bráðsmitandi afl sem allt heilar.

Er þá ætlun mín að snúa vefnum á hvolf og gjörbreyta umgjörðinni? Taka allt öðruvísi greinar að birtast á SYKRI innan tíðar? Verður SYKUR alvörugefinn vefur, nú þegar Klara litla Egilson er sest í stól ritstjóra? Hvað gerist næst? Verður SYKUR öðruvísi núna?  

Síður en svo, myndi ég segja. Það eru lesendur sem hafa virkan þátt tekið í að móta ritstjórnarstefnu SYKUR og mitt hlutverk er einungis að þétta, styrkja og hlúa að þeirri sömu umgjörð. Mitt hlutverk er að færa lesendum gleði og léttleika, laða fram bros og láta gott af mér leiða við hvert tækifæri. Mitt hlutverk er að hlúa að lesendum eftir bestu getu og að bregðast við þegar mín er þörf.

Ég er með netfangið klara@sykur.is og tek við fyrirspurnum, ábendingum og innsendu efni, gullin mín. Ég les hverja einustu athugasemd og renni yfir pósthólfið mitt á hverjum degi. Ykkur er sannarlega óhætt að senda mér línu og þó ég leggist ekki yfir hverja skráða athugasemd á samskiptamiðlum er ekki þar með sagt að ég sjái ekki orðin sem fram streyma. Stundum, hjartans sykurmolarnir mínir, þarf ég einfaldlega að veita ykkur sjálfum það sjálfsagða svigrúm að mega flæða að vild. Að skapa ykkar eigin umræðu á vefnum sem verður vonandi uppspretta frjórra skoðanaskipta og skapandi skrifa.

Ég trúi á mátt einstaklingsins og að ekkert sé þeim ómögulegt sem hefur viljastyrkinn að leiðarljósi. Ég trúi á hvert og eitt ykkar, gullin mín og ég treysti á sjálfa mig. Það er dásamlegt að setjast i stól ritstjóra SYKUR; að feta léttstíg ranghala rammíslenskra orða frá fjarlægri sólarströndu og að dæsa yfir ritstjórapistli með svalandi vatn í hönd og fletta yfir framandi heilsuumfjallanir sem fyrir liggja á vinnuborðinu og eru hver annarri forvitnilegri.

Ást og friður frá Alicante, elsku molarnir mínir!

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!