Húðflúr og lögun þeirra; hvíta tatttootískan, tímabundin húðflúr, gyllt hennahúðflúr sem fara af í sturtu, geómetrísk húðflúr og jafnvel augnhvítuhúðflúr. Allt er til og engin takmörk virðast fyrir því hvernig lögun eða form eru á húðflúrum.
Ein er þó húðflúrtískan sem sker sig úr frá öðrum tískubylgjum og það eru örsmá semíkommu-húðflúr sem hafa verið að sækja í sig veðrið að undanförnu. Ekki margir vita hvað semíkomman sjálf stendur fyrir og einhverjir halda jafnvel að það sé einfaldlega töff að ganga um með semíkommu á líkamanum … en ekki er allt sem sýnist.
Semíkomman gegnir mikilvægu hlutverki og stendur fyrir mannúð, umhyggju og von. Semíkommuhúðflúrin eru alþjóðlegt merki þeirra sem hafa glímt við þunglyndi eða eiga ástvin sem þjakaður af þunglyndi hefur einhverju sinni hugleitt og jafnvel reynt að svipta sig lífi.
Skilaboðin eru einföld, gullfalleg og skýr í eðli sínu en á vefsíðu Semíkommu-samtakanna segir:
Semíkomman merkir heila setningu sem höfundurinn hefði getað lokið við, en valdi að gera ekki. Sá höfundur – sem um er rætt – ert þú sjálfur og setningin er þitt eigið lífshlaup. Í augum margra sem einhverju sinni hafa íhugað sjálfsskaða eða jafnvel sjálfsmorð, stendur semíkomman því fyrir von og uppbyggilegum þankagangi.
Sjálft átakið, sem m.a. má skoða á samfélagsmiðlum í formi ljósmynda og lesa meira um á vefsíðu Semíkommu-samtakanna, hófst árið 2013 og á rætur sínar að rekja til Ástralíu. Tveir ungir menn, Charlee Chandler og Matthew Wills hófu leika á því að birta ljósmyndir af innanverðum handleggjum sínum, en þar höfðu þeir teiknað semíkommu á púlssvæðið í þeim tilgangi að lýsa yfir stuðningi við þá einstaklinga sem glíma við geðraskanir. Fljótlega eftir að fyrstu ljósmyndirnar birtust á vefnum, stofnuðu strákarnir Semíkommu átakið.
Semíkommu-átakið hvetur til opinnar umræðu um mikilvægi geðheilbrigðis; bæði fyrir þá sem eru þjakaðir af geðröskunum og svo ástvini þeirra og fjölskyldu.
Á vefsiðunni segir meðal annars:
Með því að teikna eða láta húðflúra semikommu á innanverðan handlegginn ertu í raun að lýsa yfir ákvörðun – þú ert að gefa lífinu loforð. Þú ert með þessu að segja að það sé í lagi að teygja út hendina og biðja um hjálp … að það sé í lagi að styðja við bakið á ástvini sem er þunglyndur, þjakaður af kvíða, stundar sjálfsskaða bak við luktar dyr eða hefur hugleitt sjálfsmorð. Þú ert að segja að þú hafir vilja til að hjálpa meðbræðrum þínum, vinum og fjölskyldu og að þú munir mæla þeirra röddu í þeim tilgangi að vinna bug á fordómum gegn geðröskunum.