Hvers vegna hefjum við á ritstjórn allflesta daga á grænum drykk? Jú, er nema von að einhver spyrji. Og hvað er grænn drykkur? Í sjálfu sér er svarið einfalt – græni drykkurinn samanstendur iðulega af grænu káli, ávöxtum og vökva og jafnvel ofurfæðu sem setur punktinn yfir I-ið.
Kannski einhverjir fussi og segi græna drykkinn tilgangslausa tískubólu, en í alvöru talað. Hafa þeir sömu jafnvel aldrei sötrað græna morgunþrumu klukkan sex að morgni og trítlað tindilfættir út í daginn í framhaldinu? Að ekki sé talað um járninnihaldið í ferskum spínatlaufum.
Í alvöru talað; dökkgrænt kál er sneisafullt af amínósýrum, mikilvægum steinefnum, vítamínum, andoxunarefnum og öðrum hjálplegum innihaldsefnum. Allt framantalið styrkir ónæmiskerfið, stuðlar að betri heilsu og jafnvel langlífi. Svo græna morgunþruman hefur margþættan ávinning i för með sér, gott fólk.
Hér fara fimm helstu ástæður þess að græna morgunþruman er best:
- Náttúrulegur, íðilgrænn orkudrykkur með engum viðbættum efnum: Bara svona rétt til að koma deginum í gang og hrista mesta slenið á burt.
- Náttúruleg leið til að viðhalda þyngdarstjórnun: Já, hugsið ykkur bara. Ein gleðilegasta aukaverkun grænu morgunþrumunnar er eilítið þyngdartap. Auðvitað lifir þó enginn heilvita maður á grænu þrumunni og þannig verður góða fitan og próteinviðbótin að fá að fljóta með í seinni máltíðum dagsins. En þruman stendur fyrir sínu í upphafi dags.
- Græna þruman styður við heilbrigði allt árið um kring: Er ekki dásamlegt til þess að hugsa að öll snefil- og bætiefni má fá úr mat? Undursamlegt sem það er, getur dagleg inntaka grænmetis og ávaxta einmitt komið í stað bætiefna. Og unnið bug á flensu …
- Stútfull af styrkjandi andoxunarefnum: Einmitt. Græna kálið er sneisafullt af styrkjandi andoxunarefnum sem styrkja ónæmiskerfið og styðja við almenna heilbrigði.
- Besti skyndibiti sem fyrirfinnst: Auðvitað tekur bara litlar fimm mínútur að kasta i græna morgunþrumu og eins og það sé ekki nóg, það er alveg frábært að taka þrumuna með í bílinn og drekka á leið til vinnu. Fullkomin leið til að byrja daginn.