Næst þegar þú kaupir vatnsmelónu og sneiðir niður, skaltu búta niður hluta af aldinkjötinu og setja í loftþéttan frystipoka. Henda svo beint i frystihilluna og spara bitana í safaríkan morgundrykk seinna meir, sem er lagaður í blandaranum og borinn fram í háu glasi.
Og svona ef út í það er farið – því ekki að kaupa bara heila vatnsmelónu, hluta niður og frysta í heilu lagi? Vatnsmelónan er safarík, hún er meinholl og getur yljað kroppinum á köldustu vetrardögum. Ekki í bókstaflegri merkingu, en þér að segja er stórsniðugt að setja frosna ávexti í morgundrykkinn, sem kæla og fríska upp drykkinn!
Vatnsmelónubitar eru frábært sætuefni í morgundrykkinn, en ávöxturinn inniheldur bæði A og C vítamín og er sneisafullur af trefjum. Mangó-viðbótin er silkimjúk og inniheldur einnig A vítamín, en kókosvatnið er líka náttúrulegt sætuefni. Spínatið er (að mati undiritaðrar) ofurfæða sem er hlaðið af járni, vítamínum og steinefnum. Unaður í glasi, takk sem glóir af bætiefnum!
Uppskrift:
2 bollar spínat
2 bollar kókosvatn
1 ½ bolli niðurskorið aldinkjöt af mangóávexti
1 ½ bolli niðurskorin melóna (allar gerðir melónu ganga)
*Byrjið á því að setja kókosmjólkina og spínatið í blandarann og hrærið þar til blandan er orðin hnökralaus og mjúk. Setjið afganginn af innihaldsefnunum út í blandarann og hrærið vel – frábært er að setja alla vega eina tegund af frosnum ávexti í blönduna!