Vissir þú að MATARSÓDI er alveg magnaður fyrir hárið? Matarsódi getur aukið á gláa, styrkt hársekkina og edikskol að loknum matarsódaþvotti greiðir úr flækjum og mýkir hárið – en þá eru óupptaldar ilmkjarnaolíurnar sem hægt er að bæta út í eplaedikskolið, sem gefa hárinu dásamlegan og ferskan ilm.
Svo eftir hverju er að bíða! Hér er uppskriftin!
Matarsódaskol:
Byrjaðu á því að blanda einum hluta af matarsóda við þrjá hluta af vatni. Í axlarsítt hár þarf ca. 2 – 3 matskeiðar af matarsóda sem hrærðar eru saman við ca. 9 matskeiðar af vatni og hristar saman í litlum brúsa með spreystút. Þessa uppskrift er svo hægt að útfæra á misjafna vegu eftir því hversu sítt hárið er.
Fyrst skaltu bleyta hárið vel, svo skaltu úða blöndunni í blautt hárið – frá rót og út í enda. Láttu liggja í hárinu í 1 – 3 mínútur og skolaðu svo úr með heitu vatni. Mjög gott er að ljúka meðferðinni með edikskoli, þeas. þegar matarsódaskolið hefur verið þvegið og skolað vel úr hárinu.
Edikskol:
Blandaðu saman einum hluta af eplaediki saman við fjóra hluta af vatni. Það er vel hægt að draga úr ediklyktinni með lavender, piparmyntu eða rósmarín ilmkjarnaolíum – sem gefa skolinu ljúfan jurtablæ.
Hallaðu höfðinu aftur, lokaðu augunum og berðu blönduna varlega í hárið frá rót og út í enda. Láttu liggja í hárinu í nokkrar sekúndur og skolaðu svo með köldu vatni, sem hjálpar edikskolinu að vinna gegnum hárið, mýkja og auka á glansann. Edikskol er frábært til að losa úr flækjum, mýkir og gefur hárinu fallega gljááferð.