Aðdáunarverð baráttuherferð íranskra kvenna sem lýsir hugrekki þeirra og einlægum vilja til að lifa lífinu til fulls sem frjálsir einstaklingar hefur vakið heimsathygli, en sjálfar segjast konurnar einungis vilja finna vindinn leika um hárið. Ein af fætur annarri svipta þær þannig slæðunni – eða Hijab höfuðklæðinu – sem er skylduklæðnaður íranskra kvenna og deila ljósmyndunum á Facebook – gjarna undir yfirskriftinni:
Ég vil finna vindinn leika um hárið. Þetta er einföld krafa og heyrir til sjálfsagðra réttinda!
Þetta kann að hljóma einfalt í augum þeirra kvenna sem hafa val um höfuðklæðnað, engu að síður hlutu tæplega 4 milljónir kvenna í Íran sekt, aðvörun eða voru handteknar – á síðasta ári – vegna þess að þær þóttu ögra ströngum klæðareglum kvenna í Íran.
Ljósmynd: Facebook // My Stealthy Freedom
Þess má geta að konum hefur verið skylt að bera höfuðslæðu allt frá árinu 1979, en hér má sjá íslamskan höfuðklæðnað kvenna og hvers er krafist af konum í Íran í dag. Baráttuherferðin hefur farið stórum á Facebook, en ábyrgðarmaður hennar heitir Masih Alinejad, en hún er íranskur blaðamaður og þekktur femínisti og ötul talskona fyrir trúarfrelsi og kvenréttindum.
Masih, sem ólst upp hjá strangtrúuðum foreldrum sínum á heimili fjölskyldunnar í Íran, heillaðist af því trúarlega og einstaklingsbundna frelsi sem vestrænar konur njóta þegar hún fluttist til Bandaríkjanna fyrir fáeinum árum til að hefja nám við háskóla og varð það upphafið að þeirri þróttmiklu samfélagsmiðlaherferð sem vindur stöðugt meir upp á sig.
Masih Alinejad – Ljósmynd: YouTube // Vox
Einhverjar konur hafa deilt ljósmyndum af sjálfri sér með enga höfuðslæðu á Facebook síðu baráttuherferðarinnar, sem ber nafnið My Stealthy Freedom, undir yfirskriftinni:
Við verðum síðasta kynslóðin sem þvinguð er til að bera slæðuna.
Þó herferðin kunni að líta einkennilega út í augum vestrænna kvenna sem hafa aldrei búið við kúgun og ok trúarofsa, – jafnvel þó slæðan sé valkvæður klæðnaður kvenna víða um heim og þó ófáar konur kjósi sjálfar að bera slæðuna af persónulegum trúarástæðum – er herferðin þróttmikið tákn samtímans um þá samvitund kvenna sem teygir sig þvert yfir hnöttinn og myndar órjúfanleg systrabönd sem enginn menningarmunur getur rofið.
Baráttumarkmið iranskra kvenna er að gera slæðuna, eða Hijab, valkvæða en ekki skyldu
Hér má sjá myndband sem helgað er baráttumarkmiði íranskra kvenna fyrir frelsi: