Þá er hún komin! Stjörnuspá vikunnar 15 til 25 júní og það verður spennandi að vita hvað næstu dagar fela í sér fyrir öll merki dýrahringsins. Auðvitað er hækkandi sól á himni, vorfiðringurinn í hámarki og því er forvitnilegt að sjá hvaða merki finna ástina, dusta rykið af gömlum vinskap eða ganga jafnvel inn í nýtt tímaskeið seinnihluta júní!
Sumarið er rétt að byrja!
Hrútur:
Tvöföld skilaboð og óræðar línur? Erfitt að lesa í merkingu orða? Nú fer allt að skýrast, kæri Hrútur. Þú þarft að sýna meiri ákveðni í þessari viku, – koma hreint til dyranna og krefjast svara ef þú ert í vafa. Mundu að brosa! Jákvæð hreinskilni fer þér svo vel, elsku Hrútur. Stjörnurnar verða þér hliðhollar í samskiptum allt fram í miðjan júlí – jafnvægi og ró fer að komast á tilfinningalífið og félagslífið fer að taka lit. Láttu ekki hversdagsslenið draga þig niður fyrripart vikunnar, – þú átt skemmtilega tíma í vændum og helgin fer i hlátrasköll og prakkarastrik!
Naut:
Jarðbundna, nautnafulla Naut! Elskulega og þrjóska Nautið þitt! Nú fer buddan loks að taka við sér, sumarfríið er framundan og þú getur loks farið að leyfa þér smá lúxus. Gleðin þarf ekki að kosta marga aura, mundu það! Þú ert snillingur í að nurla og veist hvernig á að fá sem mest út úr hverri krónu. Bjóddu elskunni þinni í ísbíltúr! Nýttu alla afsláttarmiða! Vertu með augun opin fyrir góðum tilboðum, ný atvinnutækifæri gætu skotið upp kollinum bráðlega og stöðuhækkun gæti verið á næsta leiti. Sumarið er tíminn, kæra Naut – svo flatmagaðu í sólinni og brostu framan í lífið.
Tvíburi:
Glaðlyndi, fjölhæfi og hugmyndaríki Tvíburinn þinn! Láttu ljós þitt skína í vikunni, Merkúr – sem er stjarna Tvíburans – er að fara gegnum þitt stjörnumerki núna. Því er tíminn til að bera upp bónorðið NÚNA. Tíminn til að bjóða laumuskotinu á stefnumót er NÚNA: Tíminn til að sækja um stöðuhækkun eða storma í starfsviðtal er NÚNA. Þetta er ÞÍN vika og ÞÚ ÁTT að nýta þér kraftmikla samskiptaorku Merkúr þér í hag. Lífið er NÚNA, kæri Tvíburi og bíður ekki eftir neinum! Svo af stað! Og til sigurs!
Krabbi:
Elsku hugmyndaríki, blíðlyndi og hlédrægi Krabbi. Hafa þyngslin verið að sliga þig að undanförnu? Hefur þig mest langað að skríða undir sæng og hjúfra þig upp að koddanum? Taktu fram dansskónna og dustaðu af þér rykið! Út úr skelinni! Sumarið er tíminn og seinnihluti júnímánaðar verður rómantiskur tími í lífi Krabbans. Ólofaðir Krabbar gætu fundið ástina og trúlofaðir sem giftir Krabbar finna hjá sér aukna þörf fyrir nánd og kelerí. Látttu ástina og kærleikann eftir þér, elsku Krabbi – án þess að láta allt eftir – hafðu mörkin skýr en leyfðu fegurðinni að smjúga inn fyrir þröskuldinn. Farðu í nudd. Keyptu falleg undirföt. Kveiktu á kertum undir miðnætursólinni. Dásamlegir tímar eru framundan og gæfuhjólið snýst þér í hag í einkalífinu.
Ljónið:
Stórlynda, glæsta Ljón. Hvar er hirðin þín niðurkomin? Hvar eru aðdáendurnir? Stígðu fram á leiksvið lífsins og breiddu út faðminn! Settu dúk á borðið, smelltu í matarboð og reiddu fram sykraða ávexti. Vinafólk sem þú hefur ekki séð lengi en saknar, gæti bankað óvænt upp á, stefnumót gæti verið á dagskrá og jafnvel óvænt ferðalag. Settu á þig bleika glossið, kæra Ljón, stút á munninn og gerðu plön fyrir helgina – eitthvað sem þú hefur ekki leyft þér lengi. Nú er félagsorkan að fara í gang og ekki er ólíklegt að þú eignist nýja vini seinnipart vikunnar. Spennandi tímar eru framundan, breiddu úr makkanum!
Meyjan:
Breytingar í atvinnulífinu eru í aðsigi hjá þér, elskulega og samviskusama Meyja. Þetta getur líka merkt breytingar á högum – uppstokkun á ábyrgðarverkum fjölskyldunnar og aukinn létti fyrir þig. Þú ert metnaðarfull í eðli þínu, elsku Meyja og hikar ekki við að endurskoða þína eigin aðferðafræði. Gættu að fullkomnunaráráttunni og mundu að það er allt í lagi að brosa skakkt, með varalit á tönnum … ef ósvikin gleði býr að baki brosinu. Vertu vakandi fyrir nýjum tilboðum nk. fimmtudag. Helgin gæti komið skemmtilega á óvart!
Vogin:
Víðsýna, rökfasta og vingjarnlega Vog. Það er ferðahugur í þér sem stendur. Ef veskið leyfir ekki utanlandsferð, skaltu rífa tjaldið út úr geymslunni og fylla á bensíntankinn. Skrepptu í útilegu. Farðu í göngutúr. Rifjaðu upp gömul kynni við bókasafnið. Hvað með kaffihús? Færðu ekki pössun fyrir börnin? Ekkert mál. Breiddu út köflóttan dúk á stofugólfið og bjóddu nokkrum vel völdum vinum í stofu-piknikk. Línur eru að skýrast og svörin sem þú hefur beðið eftir, gætu hæglega borist í þessari viku.
Sporðdreki:
Dularfulli, skarpskyggni og þolinmóði Sporðdreki. Segðu meiningu þína í þessari viku. Nýttu orku Merkúr í Tvíburamerkinu. Berðu upp spurningar, jafnvel þó þú vitir svörin. Hringdu símtalið sem þig langaði alltaf að eiga en fannst ekki tímabært að framkvæma. Skrifaðu bréfið. Láttu orðin falla. Hreinsaðu andrúmsloftið og vittu til, viðbrögðin láta ekki á sér standa – svörin verða skemmtilegri en þú þorðir að vona og afleiðingarnar verða léttlyndar, skapandi og þér í hag. Slepptu ástríðunum lausum og njóttu hvers augnabliks!
Bogmaður:
Flissandi, daðurgjarni og orkumikli Bogmaður! Í þessari viku er von á sáttum, faðmlögum og fjaðurmagnaðri helgi með tilheyrandi flugeldasýningu og fíflagangi! Smelltu þér í dansskónna, leituðu uppi sveitaball og vertu óhræddur, elsku Bogamaður við að syngja upphátt, þó tónninn sé laglaus og falskur. Merkúr í Tvíbura setur kraft í lífið núna seinnipart júní og þitt er tækifærið, elsku Bogmaður! Ef fyrrverandi skýtur upp kollinum (enn og aftur) – taktu þá endurkomunni sem hóli. Og mundu hvers vegna slitnaði upp úr sambandinu í fyrsta lagi! Brostu, elsku Bogmaður, því gæfan verður þér hliðholl þessa vikuna. Kokteill og kruðerí á laugardag!
Steingeit:
Aha! Þrjóska Steingeit! Þolinmóða, úthaldsgóða og formfasta Steingeit! Svo þú hélst að vikan yrði viðburðasnauð? Aldeilis ekki! Ef tafir hafa einkennt lífið undanfarnar vikur, máttu vera viss um að nú er breytinga brátt að vænta. Fimmtudagurinn verður viðburðaríkur og óvænt skilaboð gætu borist þér seinni part vikunnar sem fá atburðarásina aldeilis í gang. Reiknaðu með bættum samskiptum við vinnufélaga seinni part vikunnar, einnig gæti létt yfir heimilislífinu og gott ef þú öðlast ekki bara loks nægilegt hugrekki til að stinga upp á stefnumóti þegar föstudagurinn er runninn upp. Skemmtileg vika, glaðlegar fréttir og mun léttari orka. Til hamingju, kæra Steingeit, þetta verður skemmtilega eftirminnileg vika!
Vatnsberi:
Rökfasti hugmyndasmiðurinn þinn! Óhefðbundni, fyndni og skemmtilegi Vatnsberi! Alltaf skaltu skera þig úr fjöldanum með hnyttnum athugasemdum, litríkum klæðnaði og hugrekki til að vera ÞÚ og enginn annar! Miðvikudagurinn er væntanlegur til afreka. Láttu flakka. Framkvæmdu hugmyndina. Taktu upp símtólið. Farðu í bíltúrinn. Teiknaðu myndina, kláraðu að semja lagið – keyptu flugmiðann. Gerðu það bara. Fylgdu innsæinu, láttu tilfinninguna leiða þig til góðra verka og byrjaðu snemma að undirbúa helgina. Vingjarnlegt viðmót þitt mun sannarlega vinna með þér, elsku Vatnsberi. Þú laðar að þér nýja vini eins og býfluga dregst að hunangi. Dásamlegi júní er helgaður daðri í lífi Vatnsberans og þá orku áttu sannarlega inni hjá örlagadísunum!
Fiskarnir:
Elsku draumórakenndu, tilfinninganæmu og hugmyndaríku Fiskar. Tími efasemda er liðinn. Nú fara línur loks að skýrast. Svörin byrja að detta inn um lúguna í þessari viku, framundan er sólbjarta sumarið og haustið fer að taka á sig fjarlæga mynd. Loks ertu farinn að eygja, elsku Fiskur, til strandar og erfiði undanfarinna mánaða er farið að bera ávöxt. Þér í hag. Rómantíkin er handan við hornið – sýndu þolinmæði, útsjónarsemi og samvinnuvilja – það er ekki langt þar til þú færð bikarinn í hendur. Ekki hika við að bjóða i teboð, elsku Fiskur, dustaðu rykið af útidyramottunni og taktu fram fína bollastellið. Þú átt skilið að halda smá vinkonuboð núna. Fylgdu innsæinu þessa vikuna frekar en að fylgja ráðum annarra í blindni, því innst inni, elsku Fiskur … veistu svörin best sjálf/ur. Mundu að allar breytingar hefjast innra með okkur sjálfum. Þú ert leikstjórinn í þínu eigin lífi, svo stígðu fram og taktu uppbyggilega ákvörðun. Sunnudagur verður bestur allra daga vikunnar.