Sælar elskurnar. Ég hérna. Frú Sykurmoli. Alveg að brjálast úr gleði yfir öllu litaúrvalinu þessa dagana. Sumarið fer svona með sálina, þið skiljið. Frúin var að týna sprek úti í fjöru um daginn þegar hún rakst á þessar fínu mávafjaðrir. Gasalega fínar. Dálítið subbulegar að vísu. En ægilega fínar, þegar maður er búinn að dusta af þeim rykið í vaskinum heima.
Jæja. Hvað haldið þið – ekki er Frúin fyrr búin að setja fjaðrir í poka en þetta gasalega lekkera DIY verkefni rekur á fjörur hennar. Auðvitað á vefnum. Hvar annars staðar. Frúin er jú alltaf að gramsa eitthvað allan liðlangan daginn. Þegar hún er ekki að mála prik og svona.
Málaðar fjaðrir, molarnir mínir. Haldið þið að það sé fínt! Og alveg tilvalið fyrir barnabörnin. Við fjölskyldan opnum gallerí bráðlega og höldum sýningu! Það hlýtur bara að vera!
Alla vega. Þetta þarf í verkið. Nokkrar myndarlegar fjaðrir, föndurliti og svo auðvitað fíngerðan pensil. Og elskurnar, það getur verið sniðug hugmynd að þynna litina aðeins út í vatni. Svona upp á blæbrigðin og áferðina að gera.
Fjaðrirnar mega ekki vera rakar – ó sei sei, nei. Þær þurfa að liggja til þerris á dimmum stað í nokkra daga – svo má taka þær upp og bursta. Svo notar maður bara skartgripavír til að hengja fjaðrirnar upp á vegg … eða festa við tösku … eða næla í barðastóran hátt … ó, elsku Molarnir mínir, möguleikarnir eru endalausir!
Guðdómleg hugmynd í einu orði sagt. Ekki nóg með að prikin fái á sig lit í blóamvasanum heldur eru fjaðrirnar komnar upp á vegg líka. Í öllum regnbogans litum. Veður ekki allt í brúskuðum mávum sem mega sjá af fjöður eða svo þarna niðri við Tjörnina?
Ljósmyndir: FreePeople