Lyfjaeftirlit Bandaríkjanna hefur loks gefið grænt ljós á lyfið Flibanserin, eða Viagra fyrir konur, sem verður brátt fáanlegt gegn lyfseðli. Mikið japl, jaml og fuður tók að koma lyfinu í gegnum nálarauga Lyfjaeftirlitsins, sem hafði tvívegis áður hafnað töflunum og beitti þeim rökum að vægar aukaverkanir á borð við svima, lágan blóðþrýsting og þreytueinkenni gætu reynst konum hættuleg.
Það var ekki fyrr en þrýstihópar tóku að herja á Lyfjaeftirlitið og sögðu fáránlegt að aðeins karlar hefðu aðgengi að stinningarlyfjum, en kyndaufum konum væri neitað um aðhlynningu – að samþykktin var tekin til endurskoðunar að þriðja sinni.
Þessar upplýsingar liggja fyrir um lyfið – sem væntanlegt er á markað bráðlega:
#1 – Flibanserin kemur því brátt á markað undir heitinu Addyi . Staðreyndin er þó sú að kvenkyns útgáfan af Viagra er gjörólík litlu bláu töflunni sem karlmenn taka við risörðugleikum og virkar á miðtaugakerfið, í stað þess að auka blóðflæði til kynfæra.
#2 – Flibanserin hefur bein áhrif á heilastarfsemi og er hannað til að auka boðefnaflæði; örvar dópamínframleiðslu og hefur einnig bein áhrif á tvær gerðir seratóníns í heilanum.
#3 – Lyfið er ekki ólíkt þunglyndislyfi, reyndar er skyldleikinn slíkur að lyfið var fyrst prófað sem þunglyndislyf áður en rannsakendur áttuðu sig á því að Flibanserin hefur bein áhrif á löngun kvenna til kynmaka.
#4 – Flibanserin hefur ekki skammtímaverkun. Þó Viagra fyrir karlmenn virki nær strax, þar sem Viagra taflan eykur blóðflæði til getnaðarlims – er því öfugt farið með Flibanserin. Viagra fyrir konur er forðalyf og getur tekið heilan mánuð að ná fullri virkni, rétt eins og þegar um þunglyndislyf er að ræða. Reyndar má vænta þess að átta vikur líði áður en fullri virkni er náð.
#5 – Öfugt við Viagra fyrir karla, sem tekur virkni innan 45 mínútna frá inntöku – verður konan að taka Flibanserin daglega yfir langt skeið áður en lyfið nær fullri virkni. Því er ekki hægt að taka Flibanserin í þeirri von að fríska upp á kvöldið – því miður.
Flibanserin er ekki fyrir allar konur sem glíma við kyndeyfð, heldur einungis hluta þeirra sem eiga við vandamálið að stríða, en áætlað er að nær 16 milljónir kvenna búsettar í Bandaríkjunum einum glími við lága kynhvöt. Þá geta lífsstílstengdir þættir spilað hlutverk og dregið úr löngun kvenna til kynmaka; inntaka þunglyndislyfja sem hamla kynörvun, langvarandi streita, erfiðleikar í hjónabandi og svo sálræn áföll.
Enn er því ekki komið að því að konur fái aðgengi að skammverkandi lyfjum á borð við Viagra sem er í boði fyrir karlmenn, en Flibanserin er í það minnsta væntanlegt og þó lyfið virki á annan máta en Cialis, Levitra og Viagra, sem eru samheiti stinningarlyfja fyrir karlmenn – er um tímamótasamþykki að ræða, því aldrei fyrr hafa konur haft aðgengi að kynörvandi lyfjum gegn lyfseðli.
Reiknað er með að lyfið fái stimpilinn í ágúst á þessu ári og verði fáanlegt gegn lyfseðli frá og með næsta hausti.
Heimild: International Business Times