Brjóstamjólk er nýjasta snyrtiæðið. Einmitt. BRJÓSTAMJÓLK. Þessu greinir blaðamaður Marie Claire frá en hún prófaði aðferðina á eigin skinni (í bókstaflegri merkingu) og segir árangurinn undraverðan.
Um er að ræða hreina og ferska brjóstamjólk úr mjólkandi mæðrum, sem er hrærð út í hvítum leir, sem hefur verið ríflega bættur með E-vítamíni og er borinn á andlitið. Sjálf segist stúlkan sem ritar greinina (og deilir myndum af ferlinu á vef Marie Claire) að henni hafi í fyrstu verið skelfilega brugðið:
Mér ofbauð eiginlega í fyrstu. Mér fannst hugmyndin ógeðsleg og áhugaverð um leið. En fyrst og fremst langaði mig að vita – AF HVERJU myndi einhver bera ÞETTA framan í sig?
Eftir ákveðna rannsóknarvinnu segist blaðamaður hafa fundið svarið: Brjóstamjólk sé kraftaverkameðal í sjálfu sér. Ekki bara búi brjóstamjólk yfir nauðsynlegum næringarefnum sem ungabörn þarfnast til að vaxa og dafna – heldur búi brjóstamjólk einnig yfir græðandi eiginleikum. Mótefni í brjóstamjólk geti grætt minniháttar meiðsli og jafnvel dregið úr augnroða og eyrnabólgum, grætt sárar geirvörtur og því sé ekki nema von að snyrtivöruframleiðendur séu farnir að renna hýru auga til mjólkandi mæðra.
Svona er maskinn kynntur til sögunnar á vefsíðu snyrtistofunnar: ANDAÐU!
Snyrtistofan sem býður upp á brjóstamjólkina ber nafnið Mud Facial Bar og er til húsa í Chicago, en stúlkan þáði 30 mínútna andlitsmeðferð sem hófst á gufu til að mýkja upp og opna hörundið svo maskinn mætti smjúga dýpra. Að lokinni andlitshreinsun með banana- og lavenderlög og framhaldsmeðferð með sítrónu- og haframjölsskrúbbmaska var brjóstamjólkin svo borin á andlitið, E-vítamínbætt og blönduð hvítum leir.
Skjáskot af vefsíðu Marie Claire: Blaðamaður með brjóstamjólk á andlitinu
Snyrtifræðingurinn notaðist að sögn við kældar glerkúlur sem hún nuddaði andlitshörundið varlega með, en maskinn sjálfur var látinn liggja á andlitinu í heilar 12 mínútur.
Að því loknu var maskinn þrifinn af með volgu handklæði, rakakrem borið á andlitið … og blaðamaður undirstrikar að lokum mikilvægi þess að skipta um koddaver þegar heim er komið, svo óhreint líntau erti ekki viðkvæmt andlitið fyrstu dagana eftir meðferðina.
Og við bíðum spenntar. Ætli svona maska megi gera heima og hvar er brjóstamjólk að finna?