Sælar elskurnar! Þá er Frúin búin að festa kaup á flugmiða! Að maður skuli ekki hafa lagt land undir fót fyrr en nú. Það er svo mörg nýyrði að bætast í enskuna! Frúnni finnst þetta allt saman svo flott, búin að útbúa svona flettispjalda-system (þið skiljið, ekki satt) og prentaði þetta ægilega fína slangur af netinu um daginn.
Þeir eru búnir að finna upp nafn á aðferðina, bölvaðir!
Sko, nú er nefnilega ekki nóg að bregða fyrir sig venjulegri ensku lengur. Nei. Ef maður ætlar til NYC (New York City, það er bara svo smart að skammstafa) þá er eins gott að vera með nýyrðin á hreinu. Elskurnar, þetta er alveg frábært og það er von frúarinnar að allir töffuðu molarnir sem fara til útlanda í sumar geti nýtt sér þetta.
#1 – Frúardeit:
Ægilega eru þeir smart, Ameríkanarnir. Í útlandinu er meira að segja til orð yfir þetta! Frúin snaraði auðvitað hugtakinu beint yfir á íslensku. Enda þaulvön að fara ein í bíó. Að ekki sé talað um að húka alein með súpuskál á fínum veitingastöðum. Hvað gerir maður ekki til að hleypa notarlegheitum inn í tilveruna? En þeir kalla þetta víst masturdating upp á enska tungu ….
#2 – Lúrunæging
Oh. Þetta kannast frúin agalega vel við. Þessi dísæta tilfinning þegar þungir skórnir detta af þreyttum fótum, gallabuxurnar fá að fjúka út í horn (frúin á sko klæðaskáp, þetta er bara myndlíking) og náttbuxurnar eru teknar upp. Ó, hversu ljúft það er að skríða upp í rúm eftir langan og annasaman dag … þetta skilja þeir í útlandinu mætavel, enda er vinnudagurinn örugglega lengri hinu megin við hafið. En þar er þetta víst kallað Bedgasm … svona eins og lúrunæging.
#3 – Blaðurböðull
Já já. Frúin kallar svona fólk blaðurböðla. Frúin verður bara sár þegar kaffigestirnir taka upp farsímann og troða í sig nýbökuðum smákökum, sötra kaffið og hlæja svo beint upp í opið geðið á farsímanum. Leggið tólið frá ykkur gott fólk! Cellfish kalla þeir þetta hinu megin við hafið. Frúnni finnst það orð of kurteist. Farsíma ætti að banna með öllu í teboðum.
#4 – Bjánaklapp
Haldið þið að Frúin hafi ekki bara lent illa í bjánaklappinu fyrir troðfullum sal. Ekki alls fyrir löngu. Á svona ægilega fínni listdanssýningu. Öllu var lokið og salurinn sprakk úr gleði og frúin auðvitað bara klappaði! Og hrópaði af gleði og hélt áfram að veifa höndunum. Nú, svo slær bara skyndilega þögn á salinn og Frúin hélt áfram … hvað var enda annað hægt að gera? Bjánaklappið heitir víst Afterclap upp á enska tungu …. æ, það er allt í lagi, krakkar. Frúin skemmti sér konunglega við bjánaklappið fyrir skömmu. Það er alltaf gaman að gleðjast.
#5 – Nethola
Frúin er einmitt í Netholunni núna. Útötuð í púðum og teppum og ullarsokkum. Með tebolla á kantinum og heyrnartól í eyrunum. Frúin er snillingur í að búa til Netholur hér og þar um heimilið. Úr öllu má Netholu, eða Internest, gera …. æ, það er svo huggulegt.