KVENNABLAÐIÐ

ENGAR DÝRATILRAUNIR – L’Oreal þróar snyrtivörur á þrívíðum húðflötum

L’Oreal hefur með öllu hætt tilraunum á dýrum og mun í framtíðinni þróa vörur sínar á þrívíðu skinni, sem ræktað verður sérstaklega á rannsóknarstofu í þeim eina tilgangi að prófa snyrtivörur sem enn eru í þróun. Þetta kemur fram í breska miðlinum The Telegraph en snyrtivörurisinn hyggst treysta á hátæknina í framtíðinni og hefur undirritað samkomulag við lífprentfyrirtækið Organovo, sem mun hanna og þróa þvívíða hörundsfleti.

Framtíðin er því núna, en prófunarfletirnir verða prentaðir með svonefndu lífrænu bleki sem samanstendur af mennskum húðfrumum. Blekið myndar eins konar lög sem eru prentuð á flatan grunn þar sem frumurnar tengjast og mynda hörundsflöt. Þá hefur Organovo einnig hannað æðakerfi og líffæri með sömu tækni áður en í lok greinar má einmitt sjá myndband þar sem tæknin að baki aðferðinni er kynnt.

L’Oreal hefur löngum sýnt áhuga á að prófa snyrtivörur sínar á slíkum hörundsflötum og þannig heldur fyrirtækið úti hátþróuðum rannsóknarstofum í Frakklandi, þar sem sérhæft teymi starfar við ræktun mennskra húðfruma. Frumurnar eru þá teknar úr sýnum þeirra einstaklinga sem undirgengist hafa lýtaaðgerðir og hafa veitt samþykki sitt fyrri slíkri sýnatöku. Ræktunin fer fram í dauðhreinsuðu umhverfi við kjöraðstæður á rannsóknarstofu L’Oreal, en með þessu móti má rækta u.þ.b. 54 fermetrar af mennsku hörundi hvert ár; hluti er nýttur til þróunarstarfa innan L’Oreal og hluti er seldur áfram til annarra fyrirtækja.

Með þrívíðri lífprentun vonast L’Oreal hins vegar til þess að geta flýtt ferlinu samhliða því sem teymi Organovo vonast til þess að nýta réttinn í læknisfræðilegum tilgangi, meðal annars til prófunar nýrra lyfja. Þess utan nýtir L’Oreal ekki dýr til rannsókna á snyrtivöruþróun og þar af leiðandi binda forsvarsmenn vonir við að hin nýja tækni muni verða öðrum fyrirtækjum til eftirbreytni við þróunar- og rannsóknarvinnu á snyrtivörum.

 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!