Auðvitað kanntu að daðra. Á því leikur enginn vafi. Þú ert örugglega svo töfrandi að enginn lifandi sála fær staðist brosið, þegar þú breiðir úr vængjunum á annað borð.
En stundum … bara stundum, þurfa allir á innblæstri að halda. Það getur verið agalega auðvelt að flissa eins og fegurðardís við sárasaklausan afgreiðslumann úti í búð og missa svo andlitið þegar draumaprinsinn gengur inn um hurðina, stama á útlensku og hrökklast öfug yfir þröskuldinn og út á götu af eintómri feimni.
Sykur grúskaði í biblíu Cosmo – gróf upp hvernig má skerpa á daðrinu og heimfærði það sem við á að hverju sinni:
#1 – Sæti gaurinn á bókasafninu:
- Láttu augun líða yfir salinn þegar þú lítur upp loks upp úr bókinni, leyfðu þér að mynda augnsamband í sekúndubrot áður en þú heldur áfram að skima yfir salinn, – lygndu aftur augunum og líttu stríðnislega í augun á honum aftur. Með blakandi augnhár! Vertu viss – hann brosir.
#2 – En það er allt fullt af sætum strákum á bókasafninu:
- Er umrætt bókasafn kannski yfirfullt af myndarlegum karlmönnum? Sittu örlítið á ská í stólnum, krosslegðu fæturna, sveigðu aftur bakið og renndu fingrunum kæruleysislega gegnum hárið … *hitaaðsvif*
#3 – Heiti gaurinn með húðflúrið á kaffihúsinu:
- Þessi sæti með húðflúrið, sá sem þú hittir óvart á kaffihúsinu. Sá sem situr við sama borð og tekur þátt í hópumræðunum. Fáðu hann til að segja þér frá allri sögunni bak við flúrið, brostu og hlustaðu á manninn … pantaðu svo annan kaffibolla … *koffeinskjálfti*
#4 – Myndarlegi metrómaðurinn í bleiku skyrtunni:
- Hrósaðu klæðaburðinum. Segðu honum að jakkinn klæði hann vel, trefillinn sé fallegur á litinn – þú hafir alltaf verið svo skotin í þessum stíl. Strákar eru veikir fyrir hrósi. Að laða býflugur að með hunangi, þú skilur.
#5 – Sæti afgreiðslu-nördinn í símabúðinni:
- Er gaurinn í símabúðinni alveg sjúklega heitur? Segðu honum að besti vinur þinn sé einmitt svona sætur tæknigaur eins og hann sjálfur og að þú getir ekki gert upp við þig hvað hann langar að fá í afmælisgjöf?
#6 – Miðrar-viku-hönkið í ræktinni:
- Myndarlegi gaurinn sem þú sérð alltaf í ræktinni á miðvikudögum eftir vinnu? Gakktu upp að manninum svo lítið ber á og segðu honum að þig vanti ráð hvað varðar æfingar á hlaupabrettinu … hvaða upphitunaræfingar henti honum best? (Plís, ekki lyfta þungu til að töfra manninn, þú tognar bara í bakinu.)
#7 – Hávaxni (heiti) vinurinn sem þú þorir ekki að reyna við:
- Biddu manninn um aðstoð. Segðu honum að þú náir ekki upp á hilluna. Ráðir ekki við að lyfta svona þungum kassa. Kannski hann, sem er sterkari en þú, geti komið þér til aðstoðar? *stjörnublik í augum*
#8 – GUÐ minn GÓÐUR, bauð hann þér LOKSINS í mat?
- Horfðu á manninn elda, þegar hann loks býður þér í mat. Komdu þér vel fyrir í eldhúsinu, flissaðu með honum yfir pottunum og segðu honum að það sé langskemmtilegast að læra matreiðslu af honum … (þó þú vitir betur).