Húðflúr þurfa ekki alltaf að vera stórgerð til að vera klæðileg ásýndar. Það hefur tyrkneski húðflúrmeistarinnn Bicem Sinik fyrir löngu sannað með geómetrískri línulaga hönnun og örsmáum deplum sem varpa skemmtilega minimalískum blæ á hönnun húðflúra að minna ER meira.
Úr línulaga og smágerðum deplunum hannar þessi hæfileikaríka stúlka, sem teiknar öll sín verk upp sjálf og skyggir með örsmáum blæbrigðum svo úr verður mögnuð dýpt úr mildri hönnun; stórkostleg listaverk sem lifa áfram á hörundi þeirra sem hún notar sem striga.
Sumir segja að þessari gerð húðflúra fylgi ákveðinn vandi og að kúnst sé að gera svo úr verði vel unnið verk. Þannig hafa gagnrýnisraddir látið þau orð falla að deplar og línur, sem mynda feluhúðflúr sem erfitt er að koma auga á úr fjarlægð, séu það fíngerð að liturinn nái vart að tolla á hörundinu; að tímans tönn afmái smæstu smáatriðin. Hvort sem eitthvað er til í þeirri gagnrýni eða ekki, verður vart neitað að falleg eru flúr Bicem.
Viðfangsefni unga húðflúrmeistarans spanna allt frá hefðbundnum myndefnum til súrrealískra flúra; dýra sem spretta fullsköpuð fram úr bringunni, stjörnumerkin eins og þau komu gömlu meisturunum fyrir sjónir fyrir óralöngu eftir bakinu og stórfley sem sigla keik fram úr öxlinni. Engu virðist skipta hvert viðfangsefnið er, verk Bicam eru dásamleg að gerð og lögun í fínleika sínum og einfeldni.
Engan skildi furða að Bicem skuli halda úti vinsælum samfélagssíðum sem fara ört stækkandi, en aðdáendur hennar á Instagram spanna yfir 40 þúsund fylgjendur og Tumblr póstar hennar vekja jafnan mikla athygli.
Hér er þá Facebook síða Bicem, sem tekur ekki við vinabeiðnum en birtir gjarna myndir af nýjum verkum. Einnig má skoða verk Bicem nánar á vefsíðu TATTRX þar sem verk eftir fleiri húðflúrmeistara er einnig að finna.
Ef ætlunin er að ferðast til Instanbúl má gjarna bóka tíma hjá þessari hæfileikaríku listakonu sem starfar á húðflúrstofu og má hafa samband við HÉR en gætið að því að biðlistinn er langur og því ekki úr vegi að bóka í tíma. Að lokum má geta þess að netfang Bicem er bicemsinik@gmail.com