Martha Stewart klikkar ekki og þessi sumarlegi kokkteill er þess virði að prófa hann þó það taki smá fyrirhöfn að búa hann til. Þessi uppskrift miðast við 8 drykki.
Þú þarft að hafa við hendina:
1 1/2 bolla af góðum vodka,
1 stór gúrka; 1/2 afhýdd og skorin gróft. Geymið hinn helminginn.
1 límónu skorna í 8 báta.
2 L af sódavatni.
Engifer sýróp en svona býrðu það til:
1 bolli vatn
1 bolli sykur
4 cm langur engiferbútur sem þú afhýðir og skerð í þunnar sneiðar.
Sjóðið saman sykur og vatn og bætið engiferinu við þegar sykurinn er bráðnaður. Látið malla góða stund og takið af hellunni. Látið standa í 30 mín og sigtið síðan sýrópið í krukku. Sýrópið geymist í mánuð í kæli.
Svona býrðu kokkteilinn til!
Hellið vodka í stóra hreina krukku og bætið söxuðu gúrkunni við. Kælið í ísskáp í klukkutíma. Sigtið gúrkubitana frá og kælið að nýju þar til þú ætlar að búa kokkteilinn til. Geymist í kæli í tvo daga.
Takið hinn helminn gúrkunnar og skerið langsum þunnar, langar sneiðar með grænmetisflysjara eða ostaskera
Takið 8 drykkjarglös eða krukkur og fyllið með klaka. Setjið þrjár gúrkusneiðar og þrjár matskeiðar af vodkablöndunni í hvert glas. Kreistið safa úr límónubát í hvert glas og setjið hann svo í glasið. Fyllið með sódavatni og hrærið í 1-2 teskeiðum af engifer-sýrópinu.
Njótið helgarinnar!