Margir kannast kannski við Ebbu Guðnýju Guðmundsdóttur útaf matreiðslubókunum hennar. En Ebba er líka móðir ungs drengs sem fæddist með vanskapaða fætur. Nýlega hefur hann verið að rekast á umhverfi sitt vegna þess. Þar sannast það sem margir fatlaðir segja að fötlun þeirra eða takmörkun liggi oftar í samfélaginu en hjá þeim sjálfum. Ebba hefur mikilvæg skilaboð fram að færa til annarra foreldra og fólks almennt.
Þetta er hann Hafliði minn, 8 ára Hann er sólargeisli eins og öll börn eru Hafliði er fæddur með vanskapaða fætur fyrir neðan hné og hann vantar svokallað fibulu bein í fæturna sína. Hann fór í aðgerð þegar hann var 11 mánaða þar sem þessir vansköpuðu fætur voru teknir og myndaðir stúfar sem myndu passa vel í gervifætur. Hafliða er nýlega farið að finnast erfitt að fara í sund og erfitt að taka af sér fætur þar sem fólk og börn eru, sem hann þekkir ekki og þekkja hann ekki. Á hann er mikið horft, hann er mikið spurður og sum börn segja ,,oj“ þegar þau sjá fæturna hans eða segja að þau geti ekki horft á hann (finnst fæturnir svo skrítnir). Allt mjög skiljanlegt. En mér datt í hug að setja inn mynd af honum hér, svo þeir sem hana sjái geti rætt Hafliða/þetta við sín börn/barnabörn og kennt þeim. Þannig eykst smám saman skilningurinn og þar með umburðalyndið Svo er svo margt annað hægt að kenna börnum snjallt út frá þessu umræðuefni. Til dæmis að:
*Hafliði á ekkert bágt, hann þarf enga meðaumkun, hann er glaður og kátur, venjulegur strákur sem æfir allskonar íþróttir. En hann þarf tillitssemi (varðandi sína fötlun), samhygð & virðingu, eins og allir þurfa og eiga skilið.
*Að taka upp hanskann fyrir þá sem verið er að særa/gagnrýna/stríða, ef maður mögulega treystir sér til.
*Að augun okkar blekkja okkur oft. Þau skynja mestmegnis ytra byrði hluta, hylkið/útlit, en sjá ekki hvað er á bak við. Hægt að kenna að farsælt er að reyna að sjá fólk með hjartanu sínu. Hvernig manni líður nálægt fólki er góður mælikvarði, ekki einblína á útlitið.
*Að það er svo gott að við erum ekki öll eins, við höfum öll einhverja frábæra kosti og eitthvað sem við erum kannski minna ánægð með en maður á að einblína á styrkleika sína og annarra. Allir hafa eitthvað að gefa.
*Að enginn er fullkominn, enginn & þegar við dæmum aðra, dæmum við okkur sjálf harðast.
*Að allir vilja vera elskaðir og samþykktir, allir vilja finna að þeir séu einhvers virði og þeir séu í lagi.
*Að það dýrmætasta sem maður á, er í hjartanu okkar, ljósið þar og kærleikurinn (sorrí of væmið fyrir suma, en alls ekki fyrir börn, þau skilja vel svona lingó!)
*Að maður tapar aldrei á því að vera góður við aðra og þegar maður er góður við aðra, dregur maður fram það besta í fólki.
*Að það er nóg til fyrir alla af öllu, maður þarf ekki að vera hræddur við að gefa hlýju, hrós, bænir og annað, það er nóg til! .. og allt gott fær maður tilbaka margfalt.
*Kenna börnum að gæta náungans, þannig verður heimurinn betri.
I have learned that in the end people will forget what you said and people will forget what you did, but people will never forget how you made them feel.
-Maya Angelou