Gróska í lestri, verulega skemmtileg og fjörug samskipti ritstjórnar við lesendur og reglubundnar hláturskviður einkenndu árið sem er að líða á vef SYKUR. Ritstjórn lítur þannig yfir farinn veg með hlýju og þakklæti í huga þegar talið berst að undangengnum mánuðum, en enginn vafi leikur á því að árið 2016 muni verða enn líflegra, ef marka má þann snarpa vaxtarkipps sem orðið hefur á lesendahóp SYKUR.
Eins og verða vill um tímamót sem þessi, er skemmtilegt að líta yfir farinn veg og rifja upp hvaða greinar vöktu mesta athygli á árinu sem rennur sitt skeið á morgun, síðasta dag ársins.
Hér fara þær, tíu mest lesnu greinar SYKUR árið 2015 í öfugri röð en þetta vakti mestan áhuga lesenda:
#10 – 7 HÚSRÁÐ: EKKI HENDA KÍSILKÚLUNUM!
Hollráð Kollu Kvaran hafa í einu orði sagt slegið í gegn á vef SYKUR og er óhætt að segja að öll húsráð Frú Kvaran, sem er búsett mitt í litlum í ævintýraskógi í Noregi – ásamt börnum, eiginmanni og gæludýrum, hafi yljað lesendum og gælt við húsmóðurgenin. Skemmtilegt sem það nú er, hlaut umfjöllun Kollu sem bar nafnið: „7 Húsráð: Ekki henda kísilkúlunum!” talsvert mikla umfjöllun og trónir í tíunda sæti listans.
#9 – HVERNIG ORÐAR ÞÚ HLUTINA? PERSÓNULEIKAPRÓF!
Orð eru til alls likleg. Þetta skilja lesendur SYKUR, sem flestir þreyttu próf sem sýnir svart á hvítu að ekki er alltaf sama hvernig hlutirnir eru orðaðir. Slangrið og orðaskipan setninga getur varpað glettilegu ljósi á hvaða persónu við höfum að geyma; ritstjóri SYKUR er þannig óforbetranleg ævintýramanneskja, eins og prófið afhjúpaði og þá er einungis þeirri spurningu ósvarað hvaða manneskju þú, kæri lesandi, hefur að geyma …
#8 – EINSTÆÐ MÓÐIR MEÐ FJÖGUR BÖRN HEFUR EKKI EFNI Á MATVÆLUM – FYLGSTU MEÐ MANNINUM FYRIR AFTAN HANA:
Náungakærleikurinn og samvitund einkenndi árið sem var að líða og þannig vakti umfjöllun SYKUR um bága stöðu einstæða móður sem ekki gat greitt fyrir matvælin þegar á kassann var komið, talsverða athygli. Lesendur tóku undir með miskunnsama Samverjanum og lífleg umræða skapaðist um þá nauðsyn að rétta fram hjálparhönd.
#7 – GLEYMDIRÐU AÐ BORÐA MORGUNMAT? LESTU ÞETTA ÞÁ!
Dásamlegur morgunverður sem framreiða má í upphafi hverrar viku vakti stormandi lukku á vef SYKUR; ljúffengur hafragrautur sem setja má í ílát og geyma fram í miðja eða jafnvel lok vinnuviku. Ritstjórn fór ekki varhuga af kræsingunum; stúlkurnar sem halda úti SYKUR skera jafnvel niður ferska ávexti í upphafi hvers dags og nýta sér enn uppskriftina sem sló í gegn á vefnum – með örlítilli viðbót af grískri jógúrt.
#6 – HVAÐA DYR VELUR ÞÚ? VALIÐ SEGIR ÓTRÚLEGA MARGT UM ÞIG!
Hvaða dyr valdir þú? Persónuleikaprófið fór sigurför um netið, enda niðurstöður skemmtilegar í meira lagi. Lesendur voru ófeimnir við að deila niðurstöðum og miklar sem líflegar umræður fylgdu í kjölfarið. Að því sögðu er einungis einni spurningu ósvarað; ert þú búin/n að taka prófið og hver var niðurstaðan?
#5 – 7 ÆFINGAR SEM MUNU UMBREYTA LÍKAMA ÞÍNUM
Önnum kafnir lesendur SYKUR gripu þetta þægilega heimaæfingakerfi á lofti og hömpuðu óspart, enda dýrt að kaupa kort í ræktina og stundum gefst einfaldlega enginn tími til að grípa æfingatöskuna og bruna af stað í næsta æfingasal. Þessar sjö léttu æfingar virka svo sannarlega sem skildi, að því sögðu að kerfinu sé fylgt daglega eftir og það á stofugólfinu heima – einfaldara gæti það ekki verið!
#4 – GERÐU ÞETTA Á HVERJUM DEGI OG AUKAKÍLÓIN HVERFA
Flestir vildu í sundbolinn koma þegar sól tók að hækka á himni í vor og þannig vakti heimalöguð uppskrift að afeitrandi drykk, sem eykur á saðsemistilfinningu talsverða athygli síðastliðið vor. Ritstjórn beið ekki boðanna og blandaði undradrykkinn, sem kom að góðum notum á sendnum strendum í sólarlöndum nú í sumar og uppskar erindi sem erfiði – enda tóku kílóin að fljúga þegar drykkjarkannan góða var komin í kæli.
#3 – KYNLÍF OG STJÖRNUMERKI: HELSTU EINKENNI STJÖRNUMERKJA Í KYNLÍFINU
Hvaða stjörnumerki skyldi vera best í bólinu? Er það nautnafulli Sporðdrekinn, óútreiknanlegi Bogmaðurinn eða nákvæma Meyjan? Þessum spurningum þyrsti lesendur að finna svör við á árinu sem er að líða og sló umfjöllun um eðli og hegðan stjörnumerkjanna í svefnherberginu algerlega í gegn. Ef þú hefur gaman af að pæla í stjörnumerkjum þá er þessi grein fyrir þig; klassísk og stórskemmtileg.
#2 – SIR ANTHONY HOPKINS STEINÞAGÐI YFIR STÆRSTA LEYNDARMÁLI SÍNU Í RÚM FIMMTÍU ÁR!
Áður en Anthony Hopkins fetaði sín fyrstu spor á leiklistarbrautinni hafði hann aðra atvinnu, sem hann hefur aldrei minnst á. Reyndar fór hann svo vel með leyndarmálið að hann ræddi það varla við nokkurn mann í heil fimmtíu ár. Sumt er þess eðlis að orð ná ekki að fanga merkinguna; sjón er einfaldlega sögu ríkari. Í þessari gífurlega vinsælu umfjöllun má sjá þegar stærsta leyndarmál stórleikarans er afhjúpað fyrir fullum sal áhorfenda sem standa á öndinni þegar sannleikurinn verður ljós.
#1 – HVAÐA STELLINGAR ERU BESTAR FYRIR STJÖRNUMERKIÐ ÞITT?
Frá árdögum SYKUR, höfum við meðal annars fært ykkur Kynlíf og stjörnumerkin,Hvaða stjörnumerki passa best og verst saman og Stjörnumerkin og líkamsræktin og virðist fólk fylgja þessum spám í leit sinni að ástinni. Okkur langaði hins vegar að velta aðeins fyrir okkur hegðunarmynstri stjörnumerkjanna í rúminu. Hvaða stelling passar þínu stjörnumerki best? – var sannarlega spurning ársins, því engin umfjöllun komst með tærnar þar sem ofannefnd grein hafði hælana á árinu sem er að líða.
Ritstjórn þakkar lesendum hjartanlega fyrir samfylgdina á líðandi ári og óskar þess að nýja árið reynist lesendum farsælt, árangursríkt og skemmtilegt í alla staði!