Kyntáknið og söngstjarnan Mark Salling, sem garðinn gerði frægan sem uppreisnarseggurinn Puckerman í metsöluþáttunum GLEE hér um árið, var handtekinn á heimili sínu í Sunland, Kaliforníu fyrr í dag og færður í gæsluvarðhald.
Kynferðisbrotadeild lögreglunnar í Los Angeles réðist til atlögu og gerði húsleit hjá Salling í kjölfar ábendingar sem barst frá fyrrum unnustu leikarans, en hún hafði samband við lögreglu fyrir nokkrum dögum síðan og sagði hundruðir klámfenginna ljósmynda af ólögráða börnum á fartölvu hans.
Handtakan var svo framkvæmd í kjölfar húsleitar, þegar kynferðisbrotadeild hafði komið höndum yfir og yfirfarið sjálft safnið, en áður hafði verið gengið úr skugga um að ekki væri um hefndaraðgerðir eða óvæginn áburð að ræða. Enginn vafi mun leika á því að leikarinn hlóð sjálfur niður ljósmyndunum, en þó ekki hafi verið greint frá eðli myndefnis eða aldri fórnarlambanna er augljóst að um alvarlegt brot er að ræða, þar sem leikarinn hefur nú verið hnepptur í gæsluvarðhald.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Salling er ákærður fyrir kynferðisbrot, en ung stúlka lagði fram ákæru á hendur honum fyrir þvingað samræði án verju árið 2013. Málinu lauk með réttarsátt í það skiptið og reiddi Salling fram 2.7 milljónir Bandaríkjadala – eða um 350 milljónum íslenskra króna, til að ljúka málinu.
Crime Watch Daily greindi frá