Ég lærði nýtt orð í vikunni, frushi. Orð sem táknar tvennt af því besta í lífinu, fruits, það er ávextir, og sushi. Ég get ekki beðið með að prófa sjálf og tilhugsunin ein fær munnvatnið til að seytla.
Þetta er með einfaldari eftirréttum sem ég hef fundið hingað til og alveg örugglega hægt að útfæra þetta á milljón og eina vegu. Allavega er ég búin að finna ótal uppskriftir hver annarri skemmtilegri.
Þessa prófaði ég á laugardagskvöldið því ég er nú þegar byrjuð að leita að jóladesert ársins. Ávextir eru alltaf ávextir en það eru mismunandi uppskriftir að hrisgrjónunum og þeim sósum sem notaðar eru.
Og þar sem ég er algjör byrjandi í sushi og kann ekkert að rúlla upp hrísgrjónum þá ákvað ég að útbúa einfaldar bollur í staðinn. Einn góðan veðurdag mun mér takast að mastera grjónin, svo hjálpi mér allir heilagir vættir!
3 bollar grjón
4 bollar vatn
6 matskeiðar sykur
2 teskeiðar salt
soðið í 20 mínútur
2 bollar kókosmjólk
1 teskeið vanilludropar
kælt
Þá eru allir þeir ávextir sem þér dettur í hug að nota, skornir niður og rúllaðir inn í hrísgrjónin eins og sýnt er í myndbandinu eða bara búnar til litla bollur og ávextirnir lagðir ofan á.
Hægt er að nota ýmsar gerðir af sósum sem ídýfu eins og til að mynda ferskar berjasósur eða jafnvel vanillusósu.
Einfalt, nýstárlegt, ferskt og hollt og hentar öllum og þá sérstaklega nú um jólin þegar salt og sætindi eru allsráðandi.
Verði ykkur að góðu og gleðilega hátíð!