Sá viðburður að koma út úr skápnum reynist flestum samkynhneigðum einstaklingum mjög erfið lífsreynsla. Þetta getur sömuleiðis verið erfið stund fyrir aðstandendur, maka, foreldra og börn. Ættingjar, vinir og vinnufélagar geta líka fundið fyrir áreitinu, en vanalega ekki í sama mæli og samkynhneigði einstaklingurinn sem finnur fyrir sínu eðli og vill lifa í samræmi við það. En hvers vegna er þessi lífsreynsla jafn spennuþrungin og raun ber vitni?
Það sem skapar hvað mestu erfiðleikana við þessar aðstæður er sú staðalmynd sem hefur þróast með samfélaginu í árþúsundir um hvað telst eðlilegt. Þessi staðalmynd mótaðist af afkomu, þ.e. mikilvægi barneigna og þess að tryggja sér afkomendur. Þá var í lagi að vera alkóhólisti en það var talið sjúklegt að vera hommi. Samkynhneigð var fyrst tekin út úr DSM (Yfirlitshandbók yfir geðsjúkdóma) árið 1973, um svipað leyti og áfengissýkin bættist við listann. Á þeim tíma fór það að skipta meira máli að virka í samfélagi sem byggir mikið á samskiptum. Samkynhneigðir virka nefnilega vel í svoleiðis samfélagi en áfengissjúklingar síður.
Nýlegar rannsóknir á samkynhneigð hafa leitt í ljós marga líffræðilega þætti sem hafa áhrif á kynhneigð. Eftirfarandi myndband kemur mörgum af þessum atriðum mjög vel til skila og þess vegna hvetjum við fólk til að skoða myndbandið og njóta skilaboðanna.
Hér að neðan (í heimildaskrá) er tilvísun á vefsíðu þar sem Brian Mustanski gerir þessu mjög góð skil en til þess að tipla á því helsta sem kemur fram á myndskeiðinu hér að ofan þá hafa rannsóknir á samkynhneigð leitt eftirfarandi atriði í ljós:
Drengir verða ekki hommar af því að feður þeirra sýndu þeim frávísandi hegðun og mæður þeirra voru afskiptasamar og stjórnsamar í uppeldi.
Samkynhneigð er eðlileg og finnst víða í náttúrunni (Bagemihl, 1999; Sommer & Vasey, 2006). Það hefur verið sýnt fram á það með tvíburarannsóknum að samkynhneigið er háð erfðum og genum (Mustanski, Chivers, & Bailey, 2002), (Kendler, Thornton, Gilman, & Kessler, 2000) og það hefur meira að segja komið í ljós að erfðir eru stærri orsakavaldur samkynhneigðar heldur en örvhentu (Medland, Duffy, Wright, Geffen, & Martin, 2006).
Eftir því sem bræðrum fjölgar aukast líkur á því að samkynhneigð komi fram í yngsta bróðurnum. Líkurnar aukast um 33% við hvern eldri bróður (Blanchard & Bogaert, 1996). Margar kenningar eru uppi um hvers vegna svo sé. Ein þeirra gengur út á það að líkami móðurinnar líti á karlkynsfóstur sem aðskotahlut og framleiði nokkurs konar mótefni til að gera fóstrið kvenlegra. Kenningin gerir enn fremur ráð fyrir að með hverri meðgöngu verði líkami móðurinnar færari í framleiðslunni og mótefnin sterkari (Blanchard, 2008).
Í myndskeiðinu er fjallað um meðferðir við samkynhneigð sem ganga út á að „af-homma“ einstaklinga. Slíkar meðferðir hafa ekki læknisfræðilegan grunn á bak við sig og verða því að teljast einhvers konar persónuleikasnyrting en ekki læknisfræðilegar meðferðir.
Sjáið til, þetta er allt frekar eðlilegt og ekki neitt hinsegin.
Björn Vernharðsson sálfræðingur
Grein þessi birtist upphaflega á vef DOKTOR: