KVENNABLAÐIÐ

Að greinast með brjóstakrabbamein – Húð, hár og neglur

Ummæli einstaklings:

Ekkert fannst mér jafn slæmt eins og að eiga að missa hárið. Besta vinkona mín hringdi til mín þegar mér leið sem verst út af því og sagði: “Nú förum við og finnum handa þér hárkollu.” „Ég get það ekki, mér líður svo illa, þetta er ekki góður dagur til þess,” svaraði ég. Þá sagði hún: „Eitt af því versta sem maður getur lent í er að neyðast til að fá sér hárkollu – og þess vegna er þetta kjörinn dagur til þess. Hvers vegna skyldirðu eyðileggja fyrir þér GÓÐAN dag? Ég kem og við drífum í að eyðileggja það sem eftir er af þessum ömurlega degi!”

Hár, húð, neglur og brjóstakrabbamein

Í þessum hluta verður minnst á allt sem þú þarft að vita um þá mjög svo sýnilegu hluta sjálfrar þín sem krabbameinsmeðferðin hefur áhrif á – hár þitt, hörund og neglur.

Hér getur þú lesið um allt sem viðkemur hármissi og hvers vegna hárið dettur af, fundið upplýsingar um hvenær hárið byrjar venjulega að vaxa á ný . Hér finnurðu leiðbeiningar um hvernig þú getur farið að til að hylja höfuðið (kjósir þú það) , t.d. um not á hárkollum, höfuðklútum, túrbönum, höttum og farða. Mikilvægt er að hirða vel um húðina og nauðsynlegt að vita hvað gerist með neglurnar (og hvernig hægt er að hirða um þær) meðan á meðferð stendur og eftir að henni lýkur.

Hármissir

Fáar aukaverkanir meðferðar við brjóstakrabbameini virðast jafn truflandi og það að missa hárið. Mörgum konum finnst það jafnvel verra en að missa brjóst, því að brjóstamissinn er hægt að fela undir víðum fatnaði. Hármissir (læknisfræðiheitið er alopecia) ógnar tilfinningu þinni fyrir sjálfri þér, truflar einkalífið, upplifun þína af sjálfri þér sem kynveru, sjálfsmynd þína út á við og hvernig þú vilt koma fyrir sjónir – allt vegna þess hversu sýnilegur hármissir er.

Hárið er stór þáttur í því hvernig þú kemur öðrum fyrir sjónir og sjálfri þér þegar þú lítur í spegil. Hárið er hluti af útlitinu sem einkennir þig og fólk þekkir þig m.a. af hárinu. Þegar hárið er farið þarftu að hugsa upp aðrar leiðir til að sýna þig umheiminum. Það tekur talsvert á að venjast því að sjá sjálfan sig snoðklipptan eða sköllóttan. Sem betur fer – þótt það virðist taka heila eilífð – VEX hárið aftur.

Já, það er erfitt að missa hárið – en það er tímabundið ástand.

ÞB

Grein þessi birtist á vef Krabbameinsfélagsins – brjostakrabbamein.is

screenshot-www.brjostakrabbamein.is 2015-09-30 19-42-38

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!