Allir fá þá eitthvað fallegt; í það minnsta sjóðheitan jólasvein sem er eins og klipptur út úr erótískum dagdraumum allra þeirra sem of gamlir eru til að setja skóinn út í glugga. Dömur mínar og herrar, ritstjórn kynnir fjórtánda jólasveininn í ár – Paul Mason sem á ættir sínar að rekja til Kanada og heldur úti sjóðheitum Instagram aðgangi.
Paul er alvöru jólasveinn og mun troða upp á völdum viðburðum í Toronto, heimaborg sinni, nú fyrir jól. Í draumum okkar er hann auðvitað jafn skjótur á milli heimsálfa og sveinki sjálfur, sem skondrast með gotterí í poka eftir að myrkva tekur að kvöldi. Í heimalandi sínu gengur hann undir viðurnefninu Tískusveinninn, eða Fashion Santa eins og það útleggst á frummálinu, en Tískusveinki er með blik í augum, heggur niður jólatréð með hnykklaða vöðva og klæðist einungis hátískuflíkum.
Og þá er ekki eftir neinu að bíða, þar sem fyrsti jólasveinninn kemur til byggða í kvöld …
Paul er reyndar svo vinsæll á netinu að hann er ört Instagram stjarna (hann er í alvörunni tískumódel) og fólk streymir að hvaðanæva til þess eins að fá að sitja í kjöltu hans í Yorkdale verslunarmiðstöðinni í Toronto. Auðvitað er markaðsdeildin með puttann á púlsinum og þannig var kennimerkið #YorkdaleFashionSanta búið til nú í ár, allt til þess að deila dýrðinni (sem munu vera ósviknar ljósmyndir af tískusveinka).
Forsvarsmenn verslunarmiðstöðvarinnar hafa gefið það loforð að í hvert sinn sem einhver heppinn notar kennimerkið, ánafni verslunarmiðstöðin einum dollara til SickKids Foundation samtakanna að því sem nemur 10,000 dollara upphæð.