Einu sinni gifti ég mig. Neeei ég lýg því… ég gerði það þrisvar. Það var gaman í öll skiptin og ekkert þeirra var eins og hin.
Í fyrsta skiptið var ég ung og rjóð í kinnum og leit út eins og marengsterta. Foreldrar okkar sáu um allt saman og kirkjan ekkert slor. Hallgrímskirkja skyldi það vera, þar sem brúðurin hafði fermst örfáum árum áður.
Þarna gekk ég inn kirkjugólfið, skjálfandi eins og lauf í vindi við hlið föður míns og verkjaði í brosandi andlitið. Perluskreyttur snakahvítur krínólínkjóllinn ásamt hvítu slörinu sem huldi andlit mitt og hár, táknaði ósnertan hreinleika minn sem fyrir löngu var horfinn og litla leyndarmálið mitt var þess sönnun, undir öllum herlegheitunum.
Við gengum þarna inn, alltof hratt og vorum komin að altariströppunum á undan áætlun. Það var sko engin hægðarleikur að reyna að koma múnderingunni upp tröppurnar óskemmdri, þar sem ég var með báðar hendur fullar. Armurinn á föður mínum öðru megin og brúðarvöndurinn hinu megin. Staldraði við neðstu tröppuna til að reikna dæmið út og ákvað að reyna að grípa í eitthvað af kjólnum með þeirri hendinni sem upptekin var af brúðarvendinum. Náði ekki krínólíninu í gegnum kjólhafið og steig í faldinn. Og hrasaði í hverri tröppu. Og þarna við altarið beið mín kornungur brúðgumi sem neyddist til að standa bara og horfa á pínlegar aðfarir mínar við að klöngrast upp tröppurnar til hans og fylgjast með mér stíga í krínólínið í hverju skrefi þannig að það fór brátt að verða síðara en marengstertan.
Lögreglusalurinn var leigður, kampavín og snittur. Og heill haugur af fólki sem ég vissi engin deili á og hef jafnvel ekki hitt síðan þá að mér vitanlegri. Dinnertónlist og vandræðalegar þagnir, þar sem enginn kunni að halda ræður eða rjúfa þagnirnar.
Og ég komst að því á nokkrum árum að málshátturinn „fall er fararheill“ er algjört bull.
Eiginmaður nr. 2 var bóndi og vantaði ráðskonu í sveit – „börn engin fyrirstaða“.
Eftir að hafa verið fráskilin með tvö börn í Reykjavík í svolítinn tíma, lá leið mín í sveit þar sem ég myndi verða ráðskona. Ennþá var ég kornung og kunni ekkert. Kunni ekkert að elda eða baka né neitt annað sem ráðskonur í sveit eiga að kunna. En það liðu ekkert margar vikur þar til svoleiðis smáatriði skiptu engu máli.
Við giftum okkur 4 árum og einu barni seinna. Athöfnin var látlaus og við sáum um allt sjálf. Nú skyldi sparað. Ég keypti notuð brúðarföt á slikk og öll blóm voru keypt á bensínstöð.
Úr bensínstöðvarblómunum bjó ég sjálf til allar borðskreytingar og brúðarvöndinn. Þarna var ég búin að mastera listina að baka kökur og það fór ómældur tími í bakstur og skreytingar þar sem ég bakaði brúðartertuna sjálf ásamt velflestu sem á boðstólnum var.
Þeir aurar sem spöruðust á þessu voru notaðir í yndislega 10 daga brúðkaupsferð til útlanda. Og seinna keyptum við okkur King size rúm sem varð upphafið að endinum.
Eiginmaður nr. 3 er sá sem ég sæki flest pistlaefni í, þessa dagana.
Einum og hálfum mánuði eftir að sonur okkar fæddist, á afmælinu okkar, bauð þessi elska mér út að borða á uppáhaldsstaðnum okkar. Þar fór hann niður á eitt hné og bað mín.
Hálfu ári seinna létum við pússa okkur saman heima í stofu að búddískum sið. Yndislegt að eiga þá minningu um fyrsta heimilið okkar. Buðum örfáum nánum vinum og ættingjum sem komu andvarpandi í þeirri von að þetta væri nú í síðasta skiptið. Eftir hina hefðbundnu athöfn fórum við með heit fyrir hvort annað. Mjög spontant og klaufalegt…og sætt. Ég lofaði því að hann mætti alltaf fara í golf þegar hann vildi og hann lofaði því að ég mætti alltaf fara og syngja þegar ég vildi. Mjög væmið en eitt af þessum atriðum sem maður gleymir aldrei.
Ekki var þessi brúðkaupsdagur neitt verri en hinir þótt síður sé, þrátt fyrir að hann kostaði minna en ekkert…næstum því.
Við biðum í 3 mánuði eftir að komast í brúðkaupsferðina okkar. Við gátum leyft okkur 3 vikna lúxusferð til Kanarí fyrir þá peninga sem annars hefðu farið í leigu á sal, prest og kirkju, blóm og skreytingar, limmu, veislustjóra og tónlistaratriði og hvað eina sem fólki dettur í hug að hafa þennan dýrmæta dag.
Ég var hamingjusöm með að hafa börnin mín og foreldra okkar, systkin og vinafólk. Og gefa þeim soldið að borða. Reynslan var búin að kenna mér að hjónaband verður ekkert betra eða hamingjusamara þótt maður bjóði Jóni og Gunnu, frænda og frænku í 5. ættlið og öllum þeirra börnum.
Sem maður hefur ekki séð síðan í jarðaför Guðmundar langafabróður fyrir 18 árum síðan.