Ronda Rousey prýðir forsíðu íþróttablaðsins ESPN The Magazine nú í desember, sem kemur út næstkomandi föstudag en í viðtalinu ræðir Rousey meðal annars það gífurlega áfall sem hún varð fyrir þegar hún laut í lægra haldi fyrir Holly Holm í hringnum fyrir skemmstu.
Rousey hafði aldrei tapað bardaga, þegar Holly sigraði hana og svipti hina fyrrnefndu titlinum í veltivikt kvenna, þvert á spár bestu manna. Allt frá því að Rousey hneig í gólfið eftir óvænta hálsspark Holly sem sló Rousey kalda út, hefur hin fyrrnefnda þagað þunnu hljóði og jafnvel ekki nema von; erfitt getur verið að veita viðtöl á sjúkrabeði svo skömmu eftir stórt tap og það með bólgið andlit, sprungna vör og brotnar tennur.
Rousey sneri beint til Ástralíu í kjöfar bardagans, þar sem hún hefur sleikt sárin og sennilega nært sært bardagastoltið fjarri vökulum augum fjölmiðla undanfarnar vikur. Forsíðuumfjöllun ESPN er þannig fyrsta viðtalið sem Rousey veitir í kjölfar tapsins, en þar fer hún meðal annars ofan í saumana á ferlinu og segist niðurbrotin.
I’m just really fucking sad.
Á íslensku mætti yfirlýsingin útleggjast sem svo að Rousey sé gersamlega niðurbrotin yfir tapinu, en hún hefur oftlega gefið út þá yfirlýsingu að hún óttist mistök meira en allt annað.
Ég er miklu hræddari við að gera mistök en allar aðrar stelpur sem ég hef mætt í hringnum og þess vegna legg ég helmingi meira á mig við æfingar. Ég keyri mig miklu lengra áfram, því það er ómögulegt að jafna sig á tapi eftir svona langa og óslitna sigurgöngu.
Þó tímaritið sé ekki enn komið í verslanir, kemur þó fram í fjölmiðlum vestanhafs að umfjöllunin muni einnig taka á afrekum Rousey í heimi bardagaíþrótta og hampa þeim afrekum sem hún hefur unnið, brautina sem hún hefur rutt fyrir aðrar konur í sportinu og einnig þá virðingu sem hún nýtur sem íþróttakona. Rousey er ein skærasta kvenstjarnan í bardagasportinu í dag og segir Dana White, formaður Alþjóðasambandsins þannig að Rousey eigi vel afturkvæmt í hringinn þrátt fyrir að hafa lotið í lægra haldi fyrir Holly.
Ronda þarf einfaldlega á tíma að halda núna og hún þarf að gróa sára sinna. Þegar Ronda er reiðubúin, þá mun hún snúa aftur. Við beitum hana engum þrýstingi. Hún stýrir ferðinni sjálf.
Ekki lítur þó út fyrir að Rousey muni eyða löngum tíma í snökt og horsnýtur, nú þegar meistarinn hefur loks orðið að játa ósigur í hringnum. Í viðtalinu segist hún meðal annars ætla að halda ótrauð áfram og að aðeins tíminn geti skorið úr um hvað verður ofan á að lokum:
Kannski get ég ekki áorkað öllu því sem mig langar að gera meðan ég er enn á mínu blómaskeiði, áður en líkaminn gefst upp. En fjandinn hafi það, hver veit nema ég geri það samt.
Hér má sjá umfjöllun HollywoodLife um bardagann sem kostaði Rousey titillinn í nóvember: